151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég veit að ríkisstjórnin er ekki hrifin af utanaðkomandi tillögum, kannski allra síst í umræðu um fjárlög, en ég held að það hljóti að vera allt í lagi að velta aðeins vöngum hér með hæstv. fjármálaráðherra, hvort ekki mætti gera hlutina aðeins öðruvísi og betur, ég tala nú ekki um við þær aðstæður sem nú ríkja. Það verður þó óhjákvæmilegt að nefna aðeins útgjaldahliðina þó að við séum hér að ræða tekjuhliðina, því að allt helst þetta í hendur og erfitt að aðskilja þetta algjörlega.

Það sem blasir við okkur í þessu frumvarpi eru fyrst og fremst hækkanir á gjöldum og sköttum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þetta sé tíminn fyrir slíkt frumvarp, hvort þetta sé rétti tíminn til að hækka krónutölugjöldin og hinar ýmsu álögur, ekki hvað síst þessa svokölluðu grænu skatta, sem þýða einfaldlega að almenningur, fólkið í landinu og fyrirtækin, mun þurfa að greiða meira til ríkisins nú þegar flestir, eða mjög margir, a.m.k. bæði í atvinnurekstri og þeir sem eru að sjá fyrir heimili sínu, eru lentir í verulegri vörn. Er þetta rétti tíminn til að leggja enn meiri álögur á það fólk? Krónutölugjöldin hækka að vanda en ég minni þá hæstv. fjármálaráðherra á það eru ekki svo mörg ár síðan að a.m.k. tveir menn sem við þekkjum báðir, vildu komast út úr þessum vítahring með því að hverfa frá þessum sjálfkrafa hækkunum gjalda við hver áramót. Raunar var lagt af stað með þá vinnu og framkvæmd hennar því að fyrsta árið var dregið úr hækkunum um helming, ef ég man rétt, og stóð til að það héldi áfram.

En nú er þetta allt saman komið aftur í gamla farið og hér hækka krónutölugjöldin yfir línuna um 2,5%, og er þá vísað í verðbólgumarkmið Seðlabankans. En er það eðlilegt að ríkið sé alltaf leiðandi í verðhækkunum? Að nýársdagur markist ekki hvað síst af því að þá hækki ríkið verðskrá sína og allir aðrir, eða a.m.k. margir, fylgi svo eftir? Því að allt leiðir þetta út í hagkerfið á einn eða annan hátt þegar gjöld eru hækkuð, til að mynda á rekstur bifreiða, það hefur áhrif á gjöld sem þau fyrirtæki sem þurfa að reka þær bifreiðar innheimta af viðskiptavinunum.

Ríkið gefur tóninn í upphafi hvers árs varðandi verðhækkanir. Væri ekki betra, ef menn vilja viðhalda þessum lækkunum, að hafa það a.m.k. þannig að ríkið elti frekar en leiði í þeim efnum? En sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru uppi skyldi maður ætla að ríkið myndi halda aftur af sér með slíkar gjaldahækkanir.

Ég og hæstv. ráðherra hljótum að vera sammála um að einfaldara skattkerfi og skatta- og gjaldalækkanir geti skilað sér í aukinni verðmætasköpun, í fleiri störfum og jafnvel í hærri tekjum til ríkisins sem afleiðing af meiri verðmætasköpun og fleiri störfum. En hvers vegna notar ekki ríkisstjórnin tækifærið nú til að sýna það í verki að þessi trú sé þar til staðar að einfaldara skattkerfi og minna íþyngjandi skattar stuðli að verðmætasköpun og fjölgun starfa? Því að nú er sannarlega þörf á. Í staðinn fáum við hefðbundið hækkunarfrumvarp og eins og ég gat aðeins um áðan er þar ýmislegt sem hækkar meira en annað og þá sérstaklega þessir svokölluðu grænu skattar sem eiga á einhvern hátt að vera minna íþyngjandi eða ásættanlegri vegna þess að þeir eru kallaðir grænir en eru í mörgum tilvikum afskaplega undarlegir. Ég kem aðeins inn á það á eftir.

Við verðum að hafa í huga að skattlagning er mjög há á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Ef greiðslur í lífeyrissjóði eru teknar með, sem eðlilegt er því að víðast hvar er það hluti af að skattlagningunni, er Ísland með þeim löndum sem eru með hæstu skattlagningu í heimi. Nú, þegar við, efnahagslífið og fjölskyldurnar, erum lent í þessari vörn er ekki rétti tíminn til að gera breytingu þar á? Að færa hlutina aðeins í rétta átt, gefa merki um að stefnt verði í aðra og meira hvetjandi átt þannig að menn treysti sér til að ráða vonandi fleira fólk til starfa eða a.m.k. að halda rekstrinum áfram, því að mörg fyrirtæki hafa lengi verið í verulegri vörn. Löngu áður en faraldurinn hófst voru lítil og meðalstór fyrirtæki lent í mjög verulegri vörn vegna snaraukinna útgjalda, m.a. gjalda til ríkisins í ýmsu formi. Við lögðum til fyrir kosningar síðast, sem munu hafa verið 2017, að tryggingagjald yrði lækkað og lögðum m.a. til að ekki yrði greitt tryggingagjald af fyrstu tíu starfsmönnunum til að koma sérstaklega til móts við minni fyrirtækin, sem oft verða meira fyrir barðinu á tryggingagjaldinu en önnur vegna þess hversu hátt hlutfall af kostnaði þeirra liggur í launagreiðslum.

Við höfum síðan þá lagt fram fleiri tillögur varðandi tryggingagjaldið, sem er svo neikvæður skattur. Það er sérstakur skattur á það að ráða fólk í vinnu. Einnig höfum við rætt ýmsar hugmyndir um tekjuskattskerfið og ég hefði talið að hæstv. ráðherra ætti að geta verið sammála okkur um margt af því sem við höfum bent á í þeim efnum þó að hann vildi hugsanlega ræða útfærsluna. En tekjuskattskerfið er orðið mjög vinnuletjandi og kemur þá niður á heimilum, ekki hvað síst þessi misserin. Svo er tilefni til að lækka ýmis gjöld sem hækkað hafa ár frá ári, ekki hvað síst gjöld sem virka í raun sem nefskattur, gjöld sem menn greiða nokkurn veginn óháð tekjum. Það á ekki hvað síst við um þessi svokölluðu grænu gjöld sem aukast ár frá ári og raunar ótrúlega hratt og bitna til að mynda á öllum þeim sem eiga og reka bifreið. Svo er alltaf að fjölga þessum grænu gjöldum. Verið er að finna upp ný græn gjöld og nú er farið að greiða sérstök loftslagsgjöld. Reyndar hefur það verið gert um nokkurt skeið, en þau hafa hækkað alveg ótrúlega. Þá er vísað í þróun á alþjóðamörkuðum með losunarheimildir í kerfi, sem ég held að íslensk stjórnvöld ættu að velta alvarlega fyrir sér hvort rétt sé að vera þátttakandi í, því að margir hafa bent á að þetta sé að taka á sig mynd einhvers konar svikamyllu. En fjárhæð losunargjalds loftslagsheimilda hækkaði, eins og segir í frumvarpinu, úr 1.256 kr. á tonn í 3.025 kr., sem er meira en tvöföldun á síðasta ári.

Nú stendur til að hækka þetta enn um rúmar 400 kr. í 3.430 kr. og vísað í þessa alþjóðlegu svikamyllu, segja sumir, það er a.m.k. mjög ógagnsætt og undarlegt refsikerfi þar sem erfitt er að átta sig á hvar hagnaðurinn af gjaldtökunni lendir oft og tíðum, eða ávinningurinn. En á sama tíma þarf auðvitað líka að ráðast í sparnað, ef við viljum ráðast í úrbætur á skattkerfinu, gera það meira hvetjandi, verðmætaskapandi. Þess vegna hefði maður talið að þetta væri líka tíminn til að gera atlögu að bákninu svokallaða.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það nokkrum sinnum síðast þegar við vorum að ræða þau mál að báknið hefði ekki í raun vaxið í samanburði við landsframleiðslu. Þetta væri allt í lagi. En nú hefur komið á daginn, eins og bent var á þá, að landsframleiðsla getur auðvitað dregist saman. Þá snarstækkar báknið samkvæmt þessari viðmiðun hæstv. ráðherra, eins og það hefur gert núna. Nýting fjármagnsins þarf líka að verða betri en hún hefur verið. Hæstv. ráðherra hefur talað dálítið um sóun í opinbera kerfinu að undanförnu og það er gott hjá hæstv. ráðherra að vekja athygli á því, því að víða mætti nýta fjármagnið svo miklu betur, m.a. í stærstu útgjaldaflokkunum, eins og í heilbrigðismálum þar sem enn er verið að reka kerfi sem gæti svo augljóslega verið miklu hagkvæmara á ýmsan hátt og um leið veitt betri þjónustu. Frægt er dæmið um liðskiptaaðgerðir þar sem fólk er sent til útlanda og kostnaður ríkisins er jafnvel þreföldun þess sem væri ef leyft væri að framkvæma slíkar aðgerðir á sambærilegum stofum hér innan lands. Þar ræður einhver pólitísk sýn sem ég hefði haldið að hæstv. ráðherra deildi ekki. En þar ræður sú sýn fremur en skynsemi, hagkvæmni og þjónusta við sjúklinga.

Það þarf líka að huga miklu betur að hagkvæmni þeirra fjárfestinga sem ríkið ræðst í. Ég hef verið mjög undrandi að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin hefur verið viljug að setja milljarða og tugi milljarða í ýmiss konar óljós verkefni, skýjaborgir. Ekki er hikað við að lofa tugum milljarða í kerfisvæðingu loftslagsmálanna til að mynda, og 50 milljörðum, a.m.k. sem byrjunargreiðslur, í borgarlínu sem ég hefði haldið að menn hlytu að endurskoða við þessar aðstæður. Ég tala nú ekki um þegar komið er í ljós að borgin virðist ekki ætla að standa við sinn þátt í því samkomulagi og þar af leiðandi væntanlega óþarfi fyrir ríkið að greiða lausnargjaldið.

Það er því víða hægt að nýta fjármagnið betur og spara og þá um leið að lækka álögur á fólk og fyrirtæki og fjölga með því störfum og á endanum vonandi að auka tekjur ríkisins. En það sjást ekki mörg merki um slíkt hér, þvert á móti er þetta hefðbundið hækkunarfrumvarp. Ég vona að hæstv. ráðherra velti fyrir sér hvort hægt sé að laga þetta eitthvað. Það er tími til þess. Það sem við þurfum er frumvarp sem tekur mið af íslenskum raunveruleika eins og hann er núna og byggir á þeirri sýn sem ég held að hæstv. ráðherra hafi í raun, að einfaldara skattkerfi og minni álögur séu mikilvæg vopn í því að bæta lífskjör, fjölga störfum og auka verðmætasköpun á Íslandi. Það veitir sannarlega ekki af því núna.