151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg tekið undir það að við hefðum átt að vera búin að klára skattalækkunaráform sem við flýttum núna við þessar aðstæður, eins og t.d. bankaskattinn. Það er auðvitað dálítið sérstakt að mörgum fannst bankaskattslækkunin, sem ég hef oft mælt fyrir í þingsal við misjafnar undirtektir, ekki koma til greina þegar horfurnar hjá ríkissjóði voru ágætar. En svo þegar við eigum von á 260 milljarða halla á næsta ári þá tekst samstaða um að lækka þennan skatt. Mikilvægi þess að hann sé lækkaður hefur með það að gera að bankarnir starfi við það regluverk að hámarka líkur á að þeir standi með viðskiptamönnum sínum, bæði fyrirtækjum og heimilum. Ég tek þessari umræðu bara mjög fagnandi. Ég tel að skattumhverfið á Íslandi hafi verið að þróast í rétta átt og það skiptir mjög miklu máli fyrir viðspyrnuna að það sé sanngjarnt og efli samkeppnishæfni og auki möguleika til fjárfestinga. Við ætlum að koma með frumvarp um ívilnandi skattareglur fyrir fjárfestingar atvinnulífsins sem myndu þá felast í flýtifyrningum eða auknum möguleikum til fyrninga á fjárfestingum á næstu tveimur árum, eins og ég sé þetta fyrir mér, sem vonandi getur örvað fjárfestingu atvinnulífsins sem er mjög lág.

Annars verð ég að segja að ég er ekki að öllu leyti sammála hv. þingmanni um tekjuskattskerfið. Hann nefnir annars vegar að það sé orðið letjandi. Ég held að það hafi orðið meira hvetjandi, það hafi verið meira letjandi. Þar ræður úrslitum skattprósentan sjálf og við höfum verið að ná henni niður. Jaðarskatturinn er vissulega letjandi fyrirbæri en ég held samt að við höfum verið að ná umbótum á kerfinu. Og svo höfum við áður rætt þetta með þriðja skattþrepið. (Forseti hringir.) Á endanum teiknar þetta sig upp í skattbyrðilínu og maður á að vera að horfa á jaðaráhrifin. Það er alveg rétt að (Forseti hringir.) þau eru einfaldari og minni í einfaldara skattkerfi en við náum öðrum mjög mikilvægum markmiðum með þeirri breytingu sem heldur áfram núna.