151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka góðar undirtektir við þetta mál. Ég hefði kannski líka mátt minnast á það, sem hv. þingmaður kom inn á hér í lokin, að auðvitað höfum við í miklum grundvallaratriðum breytt lagaumgjörðinni um þessa starfsemi og byggt inn, svo að dæmi sé tekið, nýjar eiginfjárkröfur og nú eru komnar kröfur á fjármálafyrirtækin að skila eins konar stöðuskýrslum reglulega til Fjármálaeftirlitsins. Nýlega var auglýst staða í Seðlabankanum þess sem á að fara fyrir skilavaldinu og við erum að fara að byggja upp skilasjóðinn sem stendur þá sjálfstætt við hliðina á innstæðutryggingarsjóðnum.

Í öllu því samhengi er mjög merkilegt að sjá hvernig Evrópulöggjöfin þróaðist hér á árunum eftir hrun, þ.e. að íslenska leiðin var í raun farin. Sú leið felur það í sér að heimilt sé að fella fjármálafyrirtæki og taka hræið og búta í sundur, færa eignir úr gamla bankanum yfir í nýja og meira að segja er gengið svo langt að það er komið inn á atriði, sem við þurftum að gera langa og flókna samninga við kröfuhafana um, varðandi það hvernig fara ætti með virði eigna sem myndi hækka yfir tíma í nýja bankakerfinu. Um þetta þyrfti allt að semja við gömlu kröfuhafana. Í nýja regluverki Evrópu er íslenska leiðin í raun tekin upp með flóknum hætti, samt vel útfærðum lagatæknilega, og gengið út frá því að menn geti tekið út eignir á hrakvirði ef í óefni er komið og sett þak á ávinning gömlu kröfuhafanna ef virði eignanna eykst mikið í nýja bankanum. Ég tel að svarið í nýja regluverkinu, um það atriði sem spurt er um, sé: Jú, það er hægt og í raun og veru er töluvert mikið svigrúm til að gera einmitt þetta.