151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna var m.a. komið inn á eitt af grundvallaratriðunum í nýja regluverkinu sem er forgangur innstæðna að eignunum. Þetta var íslenska leiðin, eitt af atriðunum í íslensku aðferðinni sem var að sjálfsögðu umdeilt. Kröfuhafar höfðu fengið útgefin lögfræðiálit þegar þeir voru að lána bönkunum þar sem þeir höfðu gengið sérstaklega eftir því að fá álit íslenskra lögfræðinga á því hvar þeir stæðu í kröfuröðinni ef á reyndi. Þetta var allt saman útlistað. En svo kom hrunið og þá breytti Alþingi kröfuröðinni og auðvitað vildu menn láta reyna á það. En þetta stóðst vegna þess að þarna voru almannahagsmunir undir og nú er þetta bara orðið nýi veruleikinn. Þetta er bara orðið nýja evrópska regluverkið að ef banki fer svona illa þá fá innstæðurnar forgang.

Þetta hefur þýðingu í samhengi við það mál sem liggur hér undir í umræðunni. En ég tel engu að síður mikilvægt að fara þá leið sem þar er boðuð þó að slíkar varnargirðingar hafi þegar verið byggðar inn í kerfin okkar. Við höfum meira að segja gengið svo langt að við felum fjármálafyrirtækjum upp að vissu marki að vera stanslaust með áætlun um það hvað eigi að gera, og vera í samskiptum við eftirlitsvaldið, ef í harðbakkann slær. Það er nánast hægt að segja að fjármálafyrirtæki eigi stanslaust að vera með uppfærða áætlun um sína útför ef á hana reynir.