Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

hækkun almannatrygginga.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á þessum fordæmalausu tímum ætti enginn að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort hann hafi efni á að kaupa mat eða hvernig hann eigi að fara því að greiða reikninga. Allt of stór hópur er í hættu á alvarlegum heilsubresti vegna svefnleysis og er að bugast af áhyggjum af því hvernig hann á að fara að því að brauðfæða börn sín og greiða fyrir helstu nauðsynjar. Því miður virðist lítil siðferðiskennd hrjá þessa ríkisstjórn og það á sama tíma og veikt fólk spyr mig: Hvernig á ég að fara að því að lifa út mánuðinn á 7.000 kr.?

Hæstv. félagsmálaráðherra segir að bætur lífeyrislauna hækki samkvæmt vitlausri tölu, fjármálaráðherra samkvæmt einhverri furðulegri formúlu, vísitölu neysluverðs, og launavísitölu og síðan sé dregið frá launaskrið. Hvað segir forsætisráðherra um þetta? Hefur hún ef til vill þriðja svarið um þessa smánarlegu hækkun hjá veiku fólki og eldri borgurum upp á 3,5% um næstu áramót? Hvernig er sú hækkun reiknuð út? Það væri nú gott að fá núna kannski lokaútreikninginn á þessu.

Og þá einnig: Hvers vegna í ósköpunum er þetta eini hópurinn sem á að taka á sig skattahækkanir í formi skerðinga og það ekki neinar smáskerðingar? Ár eftir ár eru skattahækkanir alltaf settar á þennan hóp. Og hvernig? Jú, faldar skattahækkanir. Og hvernig fer ríkisstjórn eftir ríkisstjórn að því að fela þær? Jú, með auknum skerðingum sem eru ekkert annað en dulbúnir skattar.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hún að sjá til þess núna, þegar hún talar um að verja stöðu þessa hóps, að hann verði ekki fyrir skattahækkunum?