151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

skýrsla um sóttvarnalög og heimildir stjórnvalda.

[15:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri tilkynningu sem forseti flutti hér á milli fyrirspurna um að sóttvarnaaðgerðir almennt yrðu teknar til umræðu í ljósi skýrslu sem Páll Hreinsson nokkur gerði fyrir forsætisráðuneytið og skilaði af sér á dögunum. Ekki seinna vænna, myndi ég segja, að löggjafinn taki til umræðu sóttvarnaaðgerðir og þær lagaheimildir og forsendur sem menn hafa verið að beita hingað til.

Fyrirspurn mín lýtur kannski í fyrsta lagi að þeirri skýrslu sem Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, tók að sér að gera fyrir forsætisráðuneytið um sóttvarnalög og heimildir sóttvarnayfirvalda í þessum faraldri. Niðurstaða Páls í grófum dráttum er tvíþætt: Hún er annars vegar sú að fara þurfi fram heildarendurskoðun á sóttvarnalögum. Það hefur verið boðað að hingað inn í þingið komi frumvarp til nýrra sóttvarnalaga eftir áramót. Ég tel það nú kannski nokkuð seint í rassinn gripið, ef ég á að vera hreinskilin, sérstaklega í ljósi þess tíma sem menn hafa haft til að vinna með þetta, komið nú á áttunda mánuðinn. En hin niðurstaða Páls er sú að sóttvarnalög hafi þvílíka ágalla sem hafi komið í ljós við beitingu heimilda að það hafi virkilega reynt á þanþol laganna. Þess vegna bendir Páll á að það þurfi að ráðast í úrbætur á sóttvarnalögum, eins og hann nefndi það, strax.

Nú er strax teygjanlegt hugtak eins og við þekkjum í stjórnmálunum, en mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hafin sé vinna við þessar úrbætur og hvort menn hafi lagt niður fyrir sig hvaða ágallar þetta eru sem er svo brýnt að bæta úr strax.