151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[15:59]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/302 um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019, frá 13. desember 2019. Lagt er til að reglugerðinni verði veitt lagagildi hér á landi með svokallaðri tilvísunaraðferð á grundvelli sérlaga. Með því er tryggð rétt og fullnægjandi innleiðing reglugerðarinnar í íslenskan rétt í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar Íslands og jafnframt tryggt að ekki sé gengið lengra í innleiðingu en nauðsyn ber til. Þannig er í frumvarpi þessu ekki að finna neinar reglur sem ganga lengra en ákvæði reglugerðarinnar mæla fyrir um.

Markmið laganna og reglugerðarinnar er að draga úr mismunandi meðferð sem viðskiptavinir verða fyrir af ástæðum sem rekja má til búsetu, þjóðernis eða staðfestu. Slík mismunandi meðferð hefur verið algeng í netviðskiptum og kallast á ensku, með leyfi forseta, „geographical location blocking“ og reglugerðin alla jafna nefnd „geoblocking“-reglugerðin. Með því að ryðja slíkum hindrunum úr vegi megi auka viðskipti yfir landamæri innan innri markaðarins og þannig efla innri markað EES-svæðisins. Reglugerðin felur í sér sértækar reglur sem gilda í ákveðnum tilvikum. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að seljanda sé óheimilt að hindra aðgang viðskiptavina að netskilfleti sínum af ástæðum sem tengjast, eins og ég hef áður nefnt, þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavinarins. Þannig verður seljenda óheimilt að beina viðskiptavinum að annarri útgáfu netskilflatar sem er frábrugðinn þeim netskilfleti sem viðskiptavinurinn leitaði fyrst aðgangs að hvað varðar útfærslu, tungumál eða aðra eiginleika af ástæðum sem má rekja til þjóðernis, búsetu eða staðfestustaðs viðskiptavinarins, nema viðskiptavinurinn hafi veitt samþykki sitt fyrir slíkum flutningi. Í þeim tilvikum sem viðskiptavinur samþykkir að vera beint áfram til annars netskilflatar seljenda skal sá sem hann leitaði upphaflega aðgangs að vera viðskiptavininum aðgengilegur áfram.

Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að seljendum sé óheimilt að setja ólík almenn skilyrði fyrir aðgangi að vörum eða þjónustu af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestustað viðskiptavina. Í þessu felst að almennir skilmálar seljenda þurfa að uppfylla skilyrði 4. gr. Í greininni eru tilgreindar þrjár tilteknar aðstæður þar sem undir engum kringumstæðum er réttlætanlegt að viðskiptavinum sé veitt mismunandi þjónusta. Í fyrsta lagi þegar viðskiptavinur óskar þess að kaupa vöru af seljenda sem annaðhvort er afhent í aðildarríki þar sem seljandinn bíður afhendingar samkvæmt almennum skilmálum sínum eða þær sóttar á stað sem viðskiptavinur og kaupandi koma sér saman um í ríki þar sem seljendur býður upp á slíka þjónustu. Í öðru lagi þegar viðskiptavinur vill kaupa rafrænt afhenta þjónustu, aðra en miðlun á höfundaréttarvörðu efni, t.d. gagnageymslu í skýi. Í þriðja lagi þegar viðskiptavinur óskar að kaupa þjónustu frá seljanda, aðra en rafrænt afhenta þjónustu, sem veitt er á tilteknum stað í aðildarríki þar sem seljandinn stundar starfsemi, t.d. ýmiss konar smásala eða sala aðgöngumiða á viðburði. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. kemur bann samkvæmt 1. mgr. ekki í veg fyrir að seljendur bjóði almenn skilyrði sem eru mismunandi milli svæða, m.a. ólík verð. Þannig getur almenn markaðssókn seljanda á tilteknu svæði falið í sér tilboð eða afslátt án þess að það sé endilega mismunun. Þá er loks í 5. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að seljandanum sé óheimilt að setja ólík skilyrði varðandi greiðslur og greiðsluform sé það í samræmi við tilskipun um greiðsluþjónustu á innri markaðnum.

Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram mikilvæg undantekning frá gildissviði laganna. Þar kemur fram að lögin gildi ekki um seljendur sem eru undanþegnir virðisaukaskattsskyldu vegna þess að árleg velta þeirra er undir 2 millj. kr. á ári. EFTA-ríkin innan EES sömdu við Evrópusambandið um þessa undanþágu þegar reglugerðin var til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni. Undanþágan felur í sér að innleiðing reglugerðarinnar verður mun minna íþyngjandi fyrir smáa íslenska seljendur sem eru þá undanþegnir þeim skyldum sem fram koma í reglugerðinni, enda fælu þeir annars í sér töluverða byrði fyrir þá.

Lögin gilda aðeins í þeim tilvikum sem reglugerðin mælir fyrir um og ég hef fjallað um fyrr í ræðu minni. Reglugerðin hefur ekki áhrif á sérstakrar reglur sem kunna að gilda um tilteknar vörur eða þjónustu heldur gildir aðeins í þeim tilvikum sem lýst er óháð því hvert andlag kaupanna er hverju sinni. Reglugerðin felur ekki í sér skyldu fyrir íslenska seljendur að senda vörur utan, svo dæmi sé tekið. Hún felur í sér skyldu til að selja en kaupandi verður þá sækja vöruna. Þar af leiðandi miðast þetta að sjálfsögðu að meginstefnu til frekar við aðstæður á meginlandi Evrópu.

Það hefur verið spurt um það í vinnu við þetta mál hvort íslenskum áfengisframleiðendur verði heimilt að selja áfengi í netsölu á Íslandi verði frumvarpið að lögum. Það er ekki svo af því að reglugerðin gildir almennt óháð því hvað er keypt hverju sinni og sérreglur um tilteknar vörur gilda.

Áhrifin af þessari innleiðingu hér á landi verða kannski ekki ýkja mikil. Það eru ekki miklar líkur á að þetta verði íþyngjandi fyrir íslenska seljendur og á meðan á ferðatakmörkunum stendur eru litlar líkur á því. Markmiðið með þessu er m.a. að þeir sem selja vörur á Evrópska efnahagssvæðinu verði almennt með meiri flutninga yfir landamæri. Það hefur síðan bara gerst í Covid-ástandinu þannig að það má segja að að hluta til hafi markmiðið með þessari reglugerð náðst í því ástandi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.