151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[16:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og er innilega sammála henni að það er algjör forsenda að það sé fullt samstarf milli foreldra þegar um er að ræða skipta búsetu. Það er gott að búið er að taka á því að foreldrar verði líka að vera sammála um í hvaða skóla og í hvaða leikskóla barnið á að ganga af því að þeir fagaðilar sem hafa verið að rannsaka málin vilja meina að ef barn er algerlega með skipta búsetu þá borgi sig ekki að það sé með tvo ólíka vinnustaði í sínu lífi, þ.e. skóla eða leikskóla.

En það er annar hlutur sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í sem ég spurði líka um við fyrri framlagningu málsins. Þá svaraði hæstv. ráðherra því að það myndi koma inn á borð hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra. Það eru börn með fötlun. Nú eru sex mánuðir liðnir og þá spyr ég: Hefur það verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar hvernig á að taka á málefnum barna með fötlun, sem þurfa stuðning, sem munu búa í skiptri búsetu hjá báðum foreldrum? Hið opinbera styður við t.d. hjálpartæki eða þjónustu við þessi börn eða annað sem tilheyrir heimili sem ekki er hægt að færa með í hvert skipti. Það er jú hægt að færa starfsfólk eftir búsetu en maður veltir fyrir sér hvernig er með hjálpartæki og annað sem er naglfast, ef svo má segja, á heimilum, hvort það hafi verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar.