151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

almenn hegningarlög.

132. mál
[18:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps af öllu hjarta enda veita lögin eins og þau eru í dag, almenn hegningarlög, því miður ekki þá nauðsynlegu vernd sem við getum verið stolt af. Hér er verið að leggja til breytingu á hegningarlögum þess efnis að hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða situr með öðrum sambærilegum hætti um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Við höfum lög um nálgunarbann en því miður hefur það ekki dugað til. Við fullgiltum Istanbúl-samninginn og gerðum breytingar á almennum hegningarlögum árið 2016 en það hefur ekki dugað til.

Mig langar eiginlega að velta upp þeirri spurningu hversu oft nálgunarbanni er beitt á Íslandi og hversu oft tekst þolanda í slíku máli að fá lögreglustjóra til að fallast á beiðni um nálgunarbann og hversu oft fellst lögreglustjóri á að fara með slíka kröfu fyrir dóm. Hversu oft þurfa brotaþolar að standa frammi fyrir því að héraðsdómur samþykki nálgunarbann, samþykki kröfuna, en ákvörðuninni er svo snúið við í Landsrétti? Og hvað svo?

Ég vísa líka í mín fyrri störf eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir gerði hér á undan. Í lögmennsku þurfti maður oft að að beita sér til þess að fá fulltrúa lögreglu til að átta sig á alvarleika máls þegar enginn var friðurinn, þegar einstaklingur var eins og fangi á eigin heimili, eins og fangi á vinnustaðnum sínum og eins og fangi hvert sem hann fór. Oftast voru það konur sem urðu fyrir svona miklu áreiti og nánast eingöngu. Það að vera fangi í eigin lífi, í eigin daglega lífi, er algerlega óbærilegt af því að frelsissviptingin, þrátt fyrir að maður geti gengið um göturnar, verður algjör. Það verður alger vanmáttur hjá einstaklingnum sem fyrir þessu verður og alger vanmáttur hjá því kerfi sem ætti að verja einstaklinginn, hvort sem um er að ræða lögreglu eða þá sem reyna að liðsinna einstaklingnum. Jafnvel þó að það sé komið nálgunarbann virðist kerfið eiga fullt í fangi með að bregðast við þegar nálgunarbann er brotið.

Þetta segi ég til áréttingar við hæstv. dómsmálaráðherra sem leggur fram þetta góða frumvarp. Ég hvet hana til dáða að ýta á sitt fólk í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil hvetja hana líka til þess að skoða kerfið og hvernig það virkar og tryggja að kerfið sé ekki þannig að það bregðist ekki við þegar endurtekið er verið að hóta, elta, sitja fyrir einstaklingi sem verður hræddur og kvíðinn og þorir á endanum hvorki að fara út fyrir hússins dyr né svara í símann. Það er algerlega óbærilegt ástand.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að ræða sem við ættum kannski að skoða í þessu samhengi. Fyrst er það hugtakið „nákominn“ og hvort við ættum að setja inn sérstaka viðbót í lögin um þá sem eru nákomnir eins og þekkist í öðrum lagaákvæðum í almennum hegningarlögum. En þá þarf eiginlega að skilgreina hugtakið nákominn upp á nýtt eða a.m.k. skýra það betur af því að það að vera í nánu sambandi eða hafa verið í nánu sambandi virðist vera byrjað að vefjast eitthvað fyrir dómurum landsins. Nýlega féll dómur í héraðsdómi þar sem kærustupar var ekki talið vera í nánu sambandi vegna þess að það hafði ekki skráð sambúð sína. Það þarf nú eitthvað aðeins að skoða þetta.

Ég myndi líka vilja einhverja umfjöllun í nefndaráliti frá hv. nefnd er varðar ítrekuð brot og vísan í 72. gr. hegningarlaga. Það mætti nefna að ítrekuð brot eigi að hafa áhrif á refsihæð eins og í öðrum brotum en það mætti líka fjalla um síbrotafólk, síbrotamenn, sem ítrekað hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við, situr um einstakling, oftast konu, því miður, þannig að það valdi henni hræðslu eða kvíða. Það hafi sérstök áhrif á refsinguna þegar einhver gerist síbrotamaður af því að þá erum við komin í þá stöðu að hægt er að dæma manneskju í síbrotagæslu fyrir að ryðjast inn í líf annarrar manneskju með þessum hætti og valda skelfingu eins og þarna er. Ég held að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að skoða það sérstaklega líka. Við þurfum að spyrna við fótum núna. Við þurfum að sýna þolendum ofbeldis, hvers kyns sem þeir eru, að við tökum þetta alvarlega og stjórnvöld taki alvarlega það hlutverk sitt að veita þolendum ofbeldis vernd. Minna má það ekki vera.

Ég fagna þessu frumvarpi og vil að við gerum allt sem við getum til að girða fyrir hvers konar glufur í þessu sambandi.