151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[18:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mannanöfn. Um er að ræða heildarlög sem ætlað er að koma í stað gildandi laga um mannanöfn sem eru frá árinu 1996. Það má segja að löggjöfin, sem verið hefur í gildi í tæpan aldarfjórðung, sé komin nokkuð til ára sinna og ekki fyllilega í samræmi við almenn viðhorf í samfélaginu í dag. Því sé kominn tími á heildarendurskoðun löggjafarinnar.

Undirbúningur að endurskoðun mannanafnalaga hófst í ráðherratíð Ólafar Nordal árið 2015. Innanríkisráðuneytið lagði þá fram á vef sínum hugleiðingar sem ætlaðar voru til samráðs við almenning og taldi mikill meiri hluti þeirra sem skilaði umsögn um málið að þörf væri á auknu frelsi einstaklinga til nafngjafa.

Í samstarfi við félagsvísindasvið Háskóla Íslands var leitast við að kanna nánar skoðanir fólks til breytinga á lögum um mannanöfn. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að meiri hluti þátttakenda, 60% svarenda, vildi að reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar. Við nánari skoðun voru það 24% sem töldu að engar reglur ættu að gilda um mannanöfn. Aðrir töldu að einhverjar reglur ættu að gilda en höfðu mismunandi skoðanir á því hversu strangar þær ættu að vera.

Reynslan af lögunum hefur sýnt að mörgum þykja reglur um mannanöfn of strangar og telja að mannanafnanefnd sé sniðinn of þröngur stakkur þegar kemur að heimild til skráningar nýrra nafna, m.a. vegna kröfu um að þau séu í samræmi við íslenska málhefð og rithátt. Má í því sambandi nefna að samsetning þjóðfélagsins hefur tekið miklum breytingum frá setningu gildandi laga og fjöldi erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi hefur aukist mikið. Það hefur í för með sér að upptaka erlendra nafna hefur að sama skapi aukist til muna, en í sumum tilvikum hefur einmitt orðið að synja um skráningu þeirra á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni, þar sem annar aðilinn fær leyfi fyrir nöfnum erlendra ríkisborgara, en ekki þeir sem eru íslenskir ríkisborgarar.

Tilgangur frumvarpsins sem hér er lagt fram er fyrst og fremst að aðlaga löggjöf um mannanöfn betur að ríkjandi viðhorfum og aðstæðum í þjóðfélaginu, en að sama skapi að einfalda reglur um mannanöfn og auka til muna frelsi til skráningar nafna. Réttur fólks til nafns og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns á að vera ríkari en réttur ríkisins til að takmarka þann rétt.

Frumvarpið kveður á um víðtækar breytingar á löggjöf um mannanöfn. Það miðar þannig að því að afnema eins og unnt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu eiginnafna og kenninafna og rýmka heimildir til nafnbreytinga. Hefur frumvarpið því einkum að geyma lágmarksákvæði um skráningu nafna, sem er eitt eiginnafn og eitt kenninafn, en ekki er gert ráð fyrir að takmörk verði á fjölda eiginnafna eða kenninafna eins og nú er.

Í frumvarpinu er gerður áskilnaður um að við tilkynningu á nafni skuli gefa upp birtingarnafn svo samræmi verði í miðlun á nafni einstaklings.

Einnig er lögð til mikil rýmkun á ritun nafna sem mun hafa í för með sér að takmarkanir á skráningu erlendra nafna falla að mestu leyti niður. Felst það m.a. í þeirri tillögu að ekki verði lengur reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu, hafi unnið sér hefð í íslensku máli og að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Hins vegar eru lögð til þau lágmarksskilyrði að nafn verði ritað með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins að viðbættum stöfunum c, q, w og z, að nafn sé í nefnifalli og án greinis. Þá er gert ráð fyrir að nafn megi ekki vera stakur bókstafur eða skammstafanir, tölustafir, greinarmerki eða önnur tákn.

Áfram er gert að skilyrði að nafn megi ekki vera barni til ama. Ákvæðinu er ætlað að gæta hagsmuna ólögráða barna og hugsað til að koma í veg fyrir nafngjafir sem almennt geta talist íþyngjandi eða bersýnilega óviðeigandi sem nafn. Þjóðskrá Íslands skal, ef henni berst tilkynning um nafn barns sem álitið er að geti verið barni til ama, taka til úrskurðar hvort heimila skuli skráningu nafnsins. Stofnunin getur leitað álits hjá umboðsmanni barna áður en ákvörðun er tekin.

Þá er lagt til að bann við upptöku nýrra ættarnafna verði afnumið. Áfram verður kenning til foreldris meginregla hér á landi. Það nýmæli er í lögunum að heimild til notkunar ættarnafna verður ekki bundin við þá einstaklinga sem bera eða báru ættarnafn í tíð gildandi laga heldur verður öllum heimilt að taka upp ný ættarnöfn. Verður það gert með beiðni til þjóðskrár á svipaðan hátt og unnt verður að óska eftir nafnbreytingu.

Í frumvarpinu er lagt til að heimildir til nafnbreytinga verði rýmkaðar til muna, en samkvæmt lögum í dag eru þær einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Þá er lagt til að börnum frá 15 ára aldri verði tryggður sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að nafnbreytingum. Auk þess er leitast við að tryggja betur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun, sem er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þannig er ráðgert að afnema aldursmörk laganna um að samráð skuli haft við barn um nafnbreytingu sem náð hefur 12 ára aldri, en lagt er til að breyting sé háð samþykki barns hafi það náð þroska til að taka afstöðu til hennar.

Lagt er til að hætt verði að halda mannanafnaskrá í þeirri mynd sem hún hefur verið haldin af mannanafnanefnd, en í staðinn haldi Þjóðskrá Íslands skrár yfir eiginnöfn sem hún hefur skráð, og yfir ný ættarnöfn sem hafa verið samþykkt.

Þar sem heimildir til skráningar nafna verða mun víðtækari en í dag, verði frumvarpið samþykkt, er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfandi verði mannanafnanefnd, enda líkur á að ágreiningsmálum um skráningu nafna muni fækka til muna. Í stað þess að vísa málum til mannanafnanefndar verður unnt að kæra ákvörðun Þjóðskrár Íslands til ráðuneytisins.

Að lokum má nefna að lagt er til að tilkynning um nafn barns til Þjóðskrár Íslands verði alfarið á ábyrgð þeirra er fara með forsjá barns, en verði ekki lengur á verksviði presta þjóðkirkjunnar og presta eða forstöðumanna skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga þegar barni er gefið nafn við skírn eða sérstaka athöfn.

Við undirbúning frumvarps þessa var m.a. haft samráð við Þjóðskrá Íslands sem sér um skráningu nafna. Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2021 enda nauðsynlegt að veita Þjóðskrá Íslands svigrúm til að aðlaga starfsemi sína að breyttum reglum.

Virðulegi forseti. Ég vil rétt í lokin ítreka að ef við treystum fólki til að ala upp börn sín þá verðum við líka að treysta því til að gefa þeim nafn. Fjölmörg dæmi eru um nöfn sem ekki hafa fengist samþykkt og dæmi um nöfn sem þegar eru leyfð. Enn verður þó ákvæði í lögum um að nafn skuli ekki vera barni til ama. Íslensk mannanafnahefð varð ekki til með þeim lögum sem nú er verið að breyta. Henni verður heldur ekki viðhaldið með lagasetningu, henni verður viðhaldið með vilja Íslendinga og þeirra sem hér búa. Réttur einstaklings til nafns er ríkari en réttur ríkisvaldsins til að takmarka þann rétt og með þessu frumvarpi aukum við frelsi við nafngjöf og afnemum takmarkanir sem eru íþyngjandi fyrir fólk. Það er þess vegna sem ég hef fengið fjöldann allan af sögum um þessi lög og af hverju þau þykja orðin helst til ströng, þau eru fólki til ama sem getur m.a. ekki hætt að kenna sig til foreldra sem það hefur ekki samband við eða kallar varla foreldra sína.

Ég tel að með frumvarpinu sé verið að fara ákveðna millileið sem margir geti sætt sig við, leið milli þeirra sjónarmiða að halda í ákveðnar mannanafnareglur um hvernig við viljum hátta þessu og hver sé meginreglan og að auka stórlega frelsi fólks til að velja sitt eigið nafn sem og að breyta nafni, breyta kenninafni og nefna börn sín.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.