151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[18:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, gagnrýnin hefur víða komið að og þar á meðal frá fræðasamfélaginu. Doktorar í íslenskufræðum hafa m.a. skilað inn umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda og mig langar, með leyfi forseta, að vitna í umsögn frá Eiríki Rögnvaldssyni:

„Engin ástæða er til að ætla að íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi. Erlend mannanöfn eiga nú þegar greiða leið inn í málið og ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi valdið málspjöllum. […] Fyrirliggjandi frumvarp er veruleg réttarbót og afnemur þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot. Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar. Því þarf hún síst af öllu á að halda um þessar mundir.“

Þetta er ein af fjölmörgum umsögnum sem komu í samráðsgátt frá sérfræðingum. Það kom önnur m.a. frá aðila sem hefur setið í mannanafnanefnd til lengri tíma. Við skulum muna það að mannanafnanefnd var komið á fót árið 1991. Hún er ekki eldri en það. Hún bjó ekki ein til íslenska málhefð eða varðveitir íslenskt mál ein og sér. Það er fjarri lagi. En gagnrýnin hefur komið víðar að en frá fræðasamfélaginu og margir hafa tekið undir þessar breytingar og þörfina á þeim og ekki síst í ljósi þess fjölda mála sem kemur fyrir mannanafnanefnd sem sýnir þá kannski vilja fólksins til að hafa þetta með öðrum hætti. Það var líka gerð könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands en svo ekki síst bara viðtöl við fólk sem getur ekki breytt eigin kenninafni, þarf að kenna sig við foreldra sem hafa kannski bæði beitt það ofbeldi. Það hlýtur að vera að við viljum breyta slíku kerfi og gera það betra.

Varðandi mótsögnina sem hv. þingmaður nefndi þá gerir frumvarpið ekki ráð fyrir algjöru frelsi til að stafsetja nafn sitt, samanber ákvæði 3. gr. um framburð á íslensku og bann við afbökun. Ég held að með því séum við að halda í (Forseti hringir.) grunninn að því sem við viljum. Það er enn þá meginreglan að kenna sig til foreldris (Forseti hringir.) og að maður geti stafsett nafn sitt með íslenskum stöfum.