151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[19:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst segja að ég tek ekki undir það að þessi frumvörp séu áþekk þegar þingmaðurinn vísar til þess. Fræðimaðurinn skrifaði umsögn um allt annað frumvarp. Frumvörpin hafa þó sama markmið, að auka frelsi í mannanafnalöggjöf, en eru allt annars eðlis ef hv. þingmaður myndi kynna sér bæði frumvörpin. Ég myndi gjarnan vilja vita það og það kæmi fram í umræðunni hjá hv. þingmanni hvort hann telji að það hrikti nú þegar í stoðum íslenskrar tungu, með þeim fjölda erlendra nafna erlendra ríkisborgara sem hér búa og hafa aldrei verið fleiri, þó að þau falli ekki að íslenskri beygingu.

Síðan verður að vera hægt að bera fram nafn í íslensku. Það hindrar nafnstofna sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunarreglum og þetta kemur fram í frumvarpinu, t.d. hvernig hljóð raðast saman, og því væri áhugavert að heyra hvað Guðrún Kvaran hefði að segja um þetta frumvarp en hún skilaði, að ég held, ekki umsögn í samráðsgátt um þetta frumvarp. Það gerði aftur á móti Ármann Jakobsson sem lagðist t.d. gegn því frumvarpi sem hv. þingmaður kýs að vitna til í staðinn fyrir það frumvarp sem er hér til umræðu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er ótvíræð framför frá fyrri frumvörpum svipaðs efnis að því leyti að tekið er tillit til fjölmargra athugasemda sem þá bárust. Þannig er gert ráð fyrir meiri ráðgjöf um nöfn en í fyrri frumvörpum og jafnframt er gengið út frá íslensku hvað varðar stafsetningu nafna þó að stefnt sé að meira frjálslyndi en í gildandi lögum um stafsetningu.“

Þarna er verið að tala um það frumvarp sem hér er til umræðu en ekki önnur frumvörp sem hv. þingmaður virðist ætla að halda sig við.

Við gerð frumvarpsins var leitað ráða hjá sérfræðingum í íslensku sem m.a. starfa hjá Árnastofnun.

Að lokum varðandi það hvort það eigi að semja frumvörp eftir könnunum: Nei, það á ekki gera það. Það er mín einlæga skoðun að þetta sé til bóta fyrir íslenskt samfélag, að það sé þörf á breytingu á þessum reglum og lögum (Forseti hringir.) sem geri ekki fólki í íslensku samfélagi auðveldara fyrir. (Forseti hringir.) Ég hef engar áhyggjur af íslenskri málhefð og hún varð ekki til með þeim lögum sem við erum nú að breyta.