151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Velferðarnefnd fékk góða kynningu á síðasta fundi sínum varðandi útfærsluna á hlutdeildarlánum sem eru ætluð tekjulágum og ungu fólki til fyrstu kaupa á hagkvæmu húsnæði. Með hlutdeildarlánunum lánar ríkið einstaklingum að uppfylltum skilyrðum 20% af íbúðaverði og ber lánið hvorki vexti né afborganir. Íbúðareigandi greiðir síðan ríkinu hlutinn aftur ef íbúðin er seld. Þá skiptir miklu máli að tryggt verði að 20% af því fjármagni sem ætlað er í hlutdeildarlánin fari til landsbyggðanna. Þar getur hvort tveggja verið um nýtt húsnæði að ræða eða eldra uppgert húsnæði. Það er mikilvægt að eigið húsnæði fyrir tekjulága og ungt fólk standi fólki til boða víðs vegar um landið og styðji við búsetuöryggi og jákvæða byggðaþróun burt séð frá efnahag.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur upplýst að hún meti að nægt framboð hafi verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu átta mánuði af húsnæði sem uppfyllir þessi skilyrði, um tæplega 600 íbúðir. Í fréttum undanfarið hefur mátt skilja að svo væri ekki. Á landsbyggðunum utan vaxtarsvæða hafa það sem af er ári verið um 40 nýjar íbúðir sem falla undir þessa skilgreiningu og þá er ekki tekið með inn í það dæmi endurbætt og uppgert húsnæði sem á að standa til boða líka. Mikil eftirspurn er eftir þessum lánum sem standa til boða frá og með 1. nóvember og nú er það byggingarverktaka og sveitarfélaga að mæta þessu nýja úrræði í húsnæðismálum með skapandi hugsun og hagkvæmum lausnum sem skila sér í vönduðu húsnæði sem gagnast tekjulágum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur ekki hættu á að hlutdeildarlánin nýtist ekki þeim hópum sem ætlast er til og húsnæðisáætlun sveitarfélaga bendir til þess að það sé mikil þörf á uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði úti um allt land.