151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætlaði að tala um mætingu þingmanna á nefndafundi en vendingar dagsins varðandi stjórnarskrárrökin eru miklu áhugaverðari. Í frétt á visir.is frá því fyrr í dag segir, með leyfi forseta, og er haft eftir framkvæmdastjóra rekstrarfélags Stjórnarráðsins:

„Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins barst ábending frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um áletrun sem máluð hafði verið á vegg við húsnæði ráðuneytisins um helgina … Við tókum við núna síðla sumars og gerðum þá samning við ráðuneytið um að sjá um húsnæðið og lóðina í kring og í þeim samningi felist að þrífa allt óumbeðið veggjakrot. Og þetta var fyrsta veggjakrotið sem kom eftir að við tókum við … Við fengum bara ábendingu frá ráðuneytinu um að þarna væri búið að krota. Við erum með eftirlitskerfi og öryggisvörslu í kringum húsin. Þannig að þetta bara kom í ljós, að búið væri að mála á vegginn.“

En veggjakrotið var ekki þrifið, bara spurningin um hvar nýja stjórnarskráin væri, það sést á mynd sem var tekin fyrir u.þ.b. hálftíma. Það er fullt af veggjakroti þarna rétt við hliðina sem einhvern veginn fór algerlega fram hjá þessum góðu háþrýstiþvottaspúlurum. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta hafi verið fyrsta veggjakrotið sem þeir tóku eftir. Ef þeir hefðu litið örlítið lengra til vinstri hefðu þeir séð fullt af veggjakroti.

Við erum dálítið í þeirri aðstöðu að ríkisstjórnin er veggur sem stendur í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil bara spyrja þessarar einföldu spurningar: Af hverju er ekki búið að spúla þeim vegg í burtu?