Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kórónuveirufaraldurinn veldur okkur þungum búsifjum. Sem betur fer eru teikn á lofti um að það takist að þróa bóluefni nú í vetur. Norsk stjórnvöld búast við því að bóluefni verði tilbúið snemma á næsta ári. Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, lýsti því yfir í morgun þegar hann gaf norska Stórþinginu munnlega skýrslu um baráttu gegn Covid að bóluefni gegn Covid verði ókeypis fyrir alla norska borgara. Hvorki einstaklingar, sveitarfélög né sjúkrahús munu þurfa að greiða neinn kostnað vegna þessa. Norski ríkissjóðurinn mun greiða allan kostnað. Í Færeyjum eru menn enn bjartsýnni. Þar reikna heilbrigðisyfirvöld með því að fyrstu Færeyingarnir verði bólusettir fyrir jól. Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, sagði við færeyska fjölmiðla nú laust fyrir hádegi í dag að færeyska landsstjórnin muni sjá til þess að allir Færeyingar verði bólusettir ókeypis.

Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera? Er hafinn undirbúningur fyrir framkvæmd bólusetningar hér á landi og hver mun greiða kostnað vegna hennar? Verða reikningarnir sendir almenningi eða greiðir ríkissjóður fyrir það og hvernig verður skipulagið við bólusetningu? Verða áhættuhópar, svo sem fólk með undirliggjandi sjúkdóma, aldraðir og starfsfólk í heilbrigðisgeiranum, settir í forgang við bólusetningu? Þannig er stefnt að því í Noregi að þar verða sveitarfélögin látin sjá um að skipuleggja bólusetningu innan sinna hreppsmarka en ríkið greiði öll útgjöld vegna þessa. Er ríkisstjórnin á Íslandi eitthvað farin að hugleiða þetta? Væri ekki ráð að ríkisstjórnin upplýsti Alþingi og þá um leið þjóðina um þessi mál? Hvernig ætlum við að haga bólusetningunni?