151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég flyt ykkur svo sem engin ný tíðindi þó að ég segi að loftslagsbreytingar séu stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir, en þau eru engu að síður sönn. Framtíð okkar á jörðinni ræðst af því að saman náum við öll að gera róttækar breytingar á framleiðslu- og lifnaðarháttum okkar.

Ábyrga leiðin út úr þessari sögulegu atvinnuleysiskreppu núna til móts við grænni framtíð felst í sannkallaðri grænni atvinnubyltingu. Samfylkingin hefur lagt fram stórhuga aðgerðalista til að ráðast gegn hamfarahlýnun og atvinnuleysi í leiðinni. Við þessar aðstæður er skynsamlegt að forgangsraða í þágu loftslagsaðgerða sem hafa líka örvandi áhrif á eftirspurn og atvinnustig í landinu. Við eigum að nýta hagstæð vaxtakjör og fjárfestingarsvigrúm til að ráðast í miklu kraftmeiri græna uppbyggingu en við höfum gert og auka verðmætasköpun og framleiðslugetu þjóðarbúsins og undirbyggja nýjar grænar útflutningsgreinar. En til þess þurfum við að lögbinda ný markmið um a.m.k. 55% samdrátt gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og stórefla stjórnsýslu loftslagsmála.

Þá leggjum við í Samfylkingunni til stofnun græns fjárfestingarsjóðs með 5 milljarða stofnfé til að styðja við uppbyggingu grænnar atvinnustarfsemi. Við viljum ráðast í uppbyggingu iðngarða og græns hátækniiðnaðar, efla almenningssamgöngur meira og hraða borgarlínunni. Við viljum hraða orkuskiptum, hætta nýskráningum bensín- og dísilbíla fyrr og samhliða þessu þurfum við að byggja upp öflugra hleðslukerfi og eflingu dreifikerfis rafmagns. Við viljum líka að það sé ráðist í alvöruskógræktarátak.

Það er ljóst að atvinnulífið mun ekki ráða við þennan vanda eitt og sér (Forseti hringir.) og þess vegna er nauðsynlegt að ríkið stígi af krafti inn og hefji græna atvinnubyltingu.