151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í liðinni viku gerðist sá merki atburður að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, lagði fram heildstæða stefnu íslenskra stjórnvalda í kvikmyndagerð. Það er viðburður því að þetta er allra fyrsta stefna stjórnvalda á sviði kvikmyndagerðar. Ég fagna framlagningu stefnunnar, sérstaklega nú þegar gott sjónvarpsefni fyllir upp í daga margra sem dvelja þurfa heima. Nú er tækifæri okkar til að leggja fram gott og vandað efni, ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir heiminn allan. Á þessum skrýtnu tímum getur gott bíó nefnilega bætt geðslag okkar.

Með kvikmyndastefnu til ársins 2030 er vörðuð metnaðarfull braut greinarinnar inn í framtíðina. Hluti hennar er nýr fjárfestingarsjóður í sjóðakerfi menningar og skapandi greina á Íslandi, sjóður sem styður við sjónvarpsþáttagerð. Ég held að við getum verið öll sammála um að við höfum gaman af því að horfa á íslenskt sjónvarpsefni, en fjármögnun við gerð sjónvarpsþátta hefur löngum verið þung. Á síðustu árum höfum við verið dugleg við að horfa á gott og vandað norrænt sjónvarpsefni, en það er ekki að ástæðulausu sem nágrannar okkar hafa verið duglegir við að framleiða það. Þessi nýi sjóður verður rekinn að fyrirmynd norrænna kvikmynda- og sjónvarpssjóða. Við Íslendingar höfum hæfileikafólk, sögur og hugmyndir til að ná langt á sviði sjónvarpsþátta. Nú er kominn sá stuðningur sem beðið hefur verið eftir.

Hæstv. forseti. Með þessari aðgerð náum við ekki einungis að styðja við gerð sjónvarpsþátta og kvikmyndagerð, heldur styðjum við líka aðrar atvinnugreinar í landinu. Allt helst í hendur og saman gerum við meira. Kvikmyndagerð skapar umtalsverð verðmæti fyrir ríkissjóð ásamt því að skapa á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa. Þegar haustar og húmar að og regnið dynur á gluggunum er fátt betra en að kveikja á kertum, setjast upp í sófa með íslenskt ullarteppi og háma í sig íslenska sjónvarpsþætti. Áfram veginn.