151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Undanfarið höfum við fengið að heyra nýtt svar Sjálfstæðisflokksins um flóttamannavandann, að það eigi að leyfa fólki að koma hingað til lands undir þeim formerkjum að það sé að sækja sér vinnu. Það séu ekki allir flóttamenn sem hingað leita. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa síðan bent á að vandamálið sé að vísu það að sú leið sé einmitt ekki opin, og það er alveg rétt. En í þau þrjú ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lagt fram neinar tillögur til að breyta reglum um atvinnuréttindi. Flokkurinn hefur hins vegar lagt fram mjög íhaldssamt útlendingafrumvarp aftur og aftur, sem mun leiða til þess að flóttamenn munu eiga lítið skjól á Íslandi. Sú leið mun heldur ekki standa opin.

Af einhverri ástæðu standa hv. þingmenn VG í þingsal og segja að flóttamannabúðir komi ekki til greina. Ég veit ekki hvers vegna þau eru að mótmæla einhverju sem þau segja að sé samt ekki á dagskrá. Kannski er það vegna þess að þau eru ekki alveg viss. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala nú um að fyrir löngu hefði átt að breyta þessu regluverki um atvinnuleyfi og rýmka heimildir útlendinga til að koma hingað til að vinna. Hvers vegna hefur þeim ekki dottið það í hug fyrr? Vita þessir þingmenn ekki að þeir tilheyra meiri hlutanum í þinginu? Vita þeir ekki að þeir eru ríkisstjórn? Ganga þeir um uppfullir af góðum hugmyndum en þekkja því miður engan sem getur komið þeim í framkvæmd?

Ég leyfi mér að benda þessu fólki á að tækifærin eru hér og stuðningurinn er fyrir hendi í þingsal, vilji meiri hlutinn fara þá leið. Ef vilji er til að opna Ísland fyrir góðu fólki á íslenskum vinnumarkaði felast í því stórkostleg tækifæri fyrir vinnumarkaðinn og þjóðina alla til framtíð. Þar mun ekki stranda á minni hlutanum. En það vill svo skemmtilega til að þeir ráðherrar sem fara með málefni útlendinga, dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra, sitja í sömu ríkisstjórninni og geta breytt þessu einn, tveir og þrír ef þeir vilja.