Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um stjórnsýslu jafnréttismála og ég tek undir flest allt sem þar kemur fram. Þetta er hið besta mál, en getum við ekki einhvern veginn náð höndum utan um … Þó að við séum aðeins komin af stað með jafnrétti þá náum við ekki jafnrétti launa kvenna og karla. Það virðist vera svolítið erfitt að ná því. Og svo er hitt, sem er eiginlega sorglegast í þessu öllu, þ.e. mismununin gagnvart þeim sem eiga við fötlun að stríða. Þar getum við t.d. horft á aðgang fatlaðra að opinberum störfum og líka þegar hagræðing hefur verið gerð, eins og maður varð var við á sínum tíma þegar fjölda einstaklinga í hjólastólum var sagt upp hjá Strætó þegar gerðar voru breytingar þar og það voru að megninu til konur. Þannig að þessi mismunun virðist einhvern veginn enn þá vera í okkur og það er stórmerkilegt að ekki skuli fyrir löngu vera búið að taka á því.

Og síðan er líka annað sem við höfum kannski aldrei rætt almennilega, þ.e. mismunun kvenna og karla á eftirlaunum. Staðreyndin er sú að konur hafa mun verri eftirlaun en karlmenn og það er eiginlega óskiljanlegt að ekki skuli vera löngu búið að sjá til þess að jafna þarna, a.m.k. að hluta til, t.d. biðlista, vegna það setur konur oft í mjög erfiða stöðu þegar makinn fellur frá. Þá standa þær oft mjög illa fjárhagslega. Spurningin er hvernig við getum tekið það inn í dæmið líka í þessum jafnréttismálum. Hvað sér hæstv. forseti sér fyrir sér að sé til ráða í þeim málum?