Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég er alveg sammála henni í því að á þessu þarf að taka. Í sjálfu sér þarf að jafna réttindin þannig að falli t.d. eiginmaður frá þá haldi eftirlifandi eiginkona hans þeim réttindum sem maki hennar hafði þannig að ekki sé hallað þar á. Þau hafa sennilega verið samsköttuð og hafa búið lengi saman þannig að það ætti ekki að vera mikið vandamál að samræma þetta.

En ef við hugsum um jafnréttið, vegna þess að nú erum við komnir með tiltölulega mikið af — það koma upp skrýtnar karla- og kvennastéttir. Við vitum t.d. með kennara að það var að stórum hluta karlastétt hérna áður fyrr. Nú er þetta orðin kvennastétt að mestu leyti. Á sama tíma og þessar breytingar hafa orðið hefur hallað gífurlega á stöðu drengja í skólastarfinu, því miður, tölurnar varðandi drengi eru hrikalegar þegar komið er upp í háskóla. Spurningin er hver hvort það sé kynjahallinn sem valdi þessu eða hvað. Við þurfum að taka á því, og þá líka sérstaklega varðandi kvennastéttirnar. Þar sem konur eru meiri hluti stéttar hallar yfirleitt alltaf á í launum. Það er eitthvert mein sem ég skil ekki hvers vegna er látið viðgangast ár eftir ár. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra sjái einhverja lausn á því vegna þess að eins og hún sagði er búið í langan tíma að reyna þoka þessu áfram um einhver hænuskref. Hversu lengi ætlum við að feta þessi hænuskref inn í framtíðina?