Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um mjög gott frumvarp að mörgu leyti, um ódæmigerða kynhneigð og kynrænt sjálfræði. Á bls. 11 segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðgerðirnar eru heimilar með þeim skilyrðum sem 4. gr. frumvarpsins setur, þ.e. með samþykki barns eða, ef barn er ófært um að veita samþykki, þegar heilsufarslegar ástæður liggja að baki, og skal þá fylgja þeirri málsmeðferð sem þar er mælt fyrir um.“

Og þá kemur það sem ég vil beina sjónum að:

„Forhúðaraðgerðir í tilvikum þar sem forhúð er dæmigerð og þar sem slíkar aðgerðir kunna að vera gerðar eða fyrirhugaðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum falla utan gildissviðs frumvarpsins og hafa ákvæði frumvarpsins því engin áhrif á það hvort slíkar aðgerðir eru gerðar eða heimilar.“

Fyrr í dag vorum við að tala um lög um það sem barninu er fyrir bestu.

Á bls. 5 segir svo:

„Ónauðsynlegar læknismeðferðir án upplýsts samþykkis fela í sér brot gegn mannréttindum viðkomandi barna og geta haft í för með sér alvarlegar neikvæðar afleiðingar.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er þetta undanskilið? Hver er skýringin á því að af trúarlegum ástæðum megi, bara ef einhverjum dettur það í hug, framkvæma þessa aðgerð? Því í ósköpunum gildir ekki sú regla að þegar viðkomandi barn er komið á 15 ára aldur geti það tekið upplýsta ákvörðun um þetta sjálft? Hvernig í ósköpunum er hægt að fá það út að þetta sé jafnræði?