151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig í ósköpunum fæ ég þetta út, spyr hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Ég fæ þetta þannig út að mitt hlutverk, sem mér var falið með samþykkt Alþingis, hvað varðar lög um kynrænt sjálfræði, var að fjalla um læknisaðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni. Mér var ekki falið af Alþingi að fjalla sérstaklega um umskurð drengja af trúarlegum ástæðum. Hann sprettur ekki af því að þeir fæðist með ódæmigerð kyneinkenni.

Það frumvarp sem ég legg hér inn, og byggir á þessari miklu vinnu þar sem farið hefur verið yfir mjög ólík sjónarmið og vandað til verks, snýst um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ég tel hitt vera allt aðra umræðu. Umskurður drengja fellur utan við skilgreininguna á ódæmigerðum kyneinkennum sem er það sem Alþingi fól forsætisráðherra að gera. Það er það sem forsætisráðherra gerir hér og leggur þetta frumvarp fram.

Síðan vil ég bara minna á að forhúðaraðgerðir eru gerðar hér á landi, stundum af heilsufarslegum ástæðum. Þá er ástæðan sú að forhúðin er of þröng eða veldur sársauka. Það getur valdið þvaglátsvandamálum og sýkingum og öðrum vandamálum, til að mynda við kynlíf. Því getur reynst heilsufarslega nauðsynlegt að ráðast í að fjarlægja hluta forhúðar eða opna hana án þess að fjarlæga hana. Þegar börn yngri en 16 ára eiga í hlut falla slíkar aðgerðir undir 4. gr. enda teljast kyneinkenni í slíkum tilvikum ódæmigerð. En forhúðaraðgerðir þar sem forhúðin er bara venjuleg, og þar sem slíkar aðgerðir kunna að vera gerðar eða fyrirhugaðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum, falla einfaldlega utan ramma þess sem Alþingi fól mér að gera.