151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér var þingmál í fyrra sem fjallaði um umskurð drengja og forhúðaraðgerðir á drengjum af trúarlegum ástæðum. Það er ekkert sem hindrar hv. þingmenn í að setja þau mál á dagskrá. Eins og kom klárlega fram í svari mínu við fyrra andsvari snýst þetta frumvarp um að framfylgja bráðabirgðaákvæði í lögum um kynrænt sjálfræði og um breytingar á þeim lögum sem snúast um ódæmigerð kyneinkenni. Forhúðaraðgerðir eða umskurður sem gerður er á drengjum af trúarlegum ástæðum snýst ekki um ódæmigerð kyneinkenni og hefur ekkert með lögin um kynrænt sjálfræði að gera.

Allir hv. þingmenn geta hins vegar sett þessi mál á dagskrá ef þeir vilja. En ég vil bara ítreka að ég er hér að framfylgja vilja Alþingis og hef staðið fyrir þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið. Ég vil ítreka að hér er um risastóra framför og réttarbót að ræða fyrir börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Hitt málið þarf að ræða sérstaklega og varðar ekki kynrænt sjálfræði.