151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

íslensk landshöfuðlén.

9. mál
[18:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um íslensk landshöfuðlén. Frumvarpið var lagt fram á 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt nánast óbreytt en tekið hefur verið tillit til hluta þeirra athugasemda sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í apríl sl. Megininntak frumvarpsins er það hvernig staðið skuli að umsýslu landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað til notkunar á netinu ásamt nafnaþjónustu fyrir höfuðlén og skráningu léna undir þeim.

Áður en ég hef yfirferð um efni frumvarpsins tel ég rétt að vekja athygli á því að í dag er ekki í gildi nein löggjöf um landshöfuðlénið .is eða önnur landshöfuðlén með beina skírskotun til Íslands.

Í ljósi þessa og þess að flest ríki sem við berum okkur saman við hafa sett lög um lénamál má segja að Ísland hafi dregist aftur úr öðrum þjóðum varðandi lagasetningu á sviði lénaumsýslu. Miðað við erlenda þróun og mikilvægi netsins í nútímasamfélagi er ærið tilefni til að setja lagalega umgjörð um landshöfuðlén sem hafa beina skírskotun til Íslands.

Við samningu þessa frumvarps var einkum litið til öryggissjónarmiða og var það haft að markmiði að setja lágmarksreglur til að stuðla að auknu öryggi. Frumvarp þetta gengur því skemmra en fyrri frumvörp sem lögð voru fram, til að mynda á 139. og 140. löggjafarþingi, um sama efni en náðu ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að reifa helstu atriði frumvarpsins. Í I. kafla er gerð grein fyrir markmiðum þess, gildissviði, stjórn lénamála hér á landi, orðskýringum og persónuvernd. Lagt er til að markmið frumvarpsins sé að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og að styrkja tengsl þeirra við Ísland með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra. Svo sem fram hefur komið er talsverð áhersla lögð á öryggi í markmiðsákvæðinu enda eru öryggishagsmunir þeir hagsmunir sem helst hefur verið litið til við samningu frumvarpsins. Það er brýnt að aðgangur að íslenskum landshöfuðlénum sé góður en einnig að umsýsla sé örugg án þess að vera samfélaginu til ama eða tafa.

Gildissviðið afmarkast við rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað. Frumvarpið nær ekki til almennra höfuðléna enda hafa íslensk stjórnvöld ekkert með þau að gera. Íslandi hefur verið úthlutað landshöfuðléninu .is en ekki er útilokað að fleiri landslénum verði úthlutað til Íslands í framtíðinni.

Í II. kafla er að finna ákvæði um skráningarstofur, almenna heimild, tilkynningu um starfsemi og hlutverk skráningarstofa. Lagt er til að starfsemi skráningarstofa verði tilkynningarskyld en ekki leyfisskyld, svo sem fyrri frumvörp hafa gert ráð fyrir. Tilkynningarskyldan er mun minna íþyngjandi en leyfisskylda en tryggir þó yfirsýn stjórnvalda. Skilyrðin sem sett eru fyrir starfseminni hér á landi geta vart talist íþyngjandi en sum þeirra taka mið af öryggishagsmunum, svo sem að halda starfseminni hér á landi og koma í veg fyrir að rétthafaskrá og vinnsla hennar verði vistuð í skýi eða gagnaveri erlendis. Hlutverk skráningarstofa miðast við það hlutverk sem fyrirtækið Internet á Íslandi hf., ISNIC, hefur í dag.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um skráningu léna, lokun, læsingu og afskráningu þeirra, úrræði lögreglu og réttindi og skyldur rétthafa. Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu léna frá því sem nú er. Skráningin er rafræn að mestu leyti og setja skráningarstofur sjálfar reglur um skráningu léna. Ráðherra mun geta sett reglur um viðmið sem hafa skuli í heiðri við setningu reglna en mun ekki setja efnisreglur um skráningu enda gilda nokkuð fastmótaðar alþjóðlegar reglur um skráningu léna.

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum sérstaklega um ákvæði III. kafla frumvarpsins er varða úrræði eins og að loka skráðu léni, afskrá það, læsa því eða leggja hald á það. Í 10. gr. er að finna reglur sem eru í samræmi við reglur ISNIC en sem rétt þykir að setja í lög. Ég vek athygli á því úrræði að læsa léni en í því felst að ekki er hægt að flytja lén á milli rétthafa. Úrræði sem þetta hefur nýst og nýtist t.d. þegar mál er til meðferðar hjá Neytendastofu, t.d. á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.

Í 11. gr. eru lögð til úrræði handa lögreglu. Lagt er til að lögregla geti krafist þess, að undangengnum dómsúrskurði, að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í ákveðnum tilvikum, t.d. ef rétthafi léns, umboðsmaður hans eða þjónustuaðili hefur náin tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða nýtir lénið í þágu slíkrar starfsemi. Þá er lagt til að lögregla geti, að undangengnum dómsúrskurði, lagt hald á skráð lén og rekið það í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna. Framangreindar heimildir eru mjög íþyngjandi fyrir rétthafa og fela í sér mikið inngrip. Því er lagt til, svo sem fram hefur komið, að ávallt sé leitað atbeina dómstóla til að beita slíkum úrræðum.

Þá er mikilvægt, virðulegi forseti, að það komi hér fram í tengslum við réttindi og skyldur rétthafa léna, að rétthafi öðlast ekki beinan eignarrétt á léni heldur aðeins óbeinan eignarrétt, nánar tiltekið það sem kallast einkaafnotaréttur af léni.

Í IV. kafla frumvarpsins er að finna ýmis ákvæði, svo sem um eftirlit, dagsektir, rekstur landshöfuðléns á stríðstímum og við yfirvofandi hryðjuverkaárás og um fagráð.

Í ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að ríkissjóður fái forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC. Þetta ákvæði er sett fyrst og fremst til að tryggja að félagið verði ekki selt út úr íslenskri lögsögu þótt gert sé ráð fyrir að ríkissjóður geti einnig beitt forkaupsréttinum ef innlent félag áformar að kaupa hlut í ISNIC.

Forkaupsréttur samkvæmt frumvarpinu heimilar ríkissjóði að ganga inn í tilboð sem gert hefur verið í félagið. Ríkissjóði er hins vegar ekki skylt að nýta réttinn. Rétt er að benda á að í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru skráningarstofur gjarnan reknar sem sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.