151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

íslensk landshöfuðlén.

9. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýringar hans á frumvarpinu, sem lagt er fram í annað sinn. Ég er að velta fyrir mér III. kafla, og þá sér í lagi 10. gr. og helst 11. gr., sem fjallar um lokun, læsingu og afskráningu léna og þess háttar. Þar er vikið að atriði sem komið hefur til umræðu áður og er kannski flóknara en virðist í fyrstu. Það varðar það að lén megi ekki brjóta í bága við landslög og þess háttar. Það þykir mér svolítið hættuleg braut vegna þess að það er ýmislegt bannað í íslenskum landslögum og það er ýmislegt efni ólöglegt á Íslandi sem ekki er ólöglegt annars staðar.

Ég ætla að nefna tvennt. Í 95. gr. almennra hegningarlaga er bannað að rægja eða smána, eða hvernig það er orðað, erlenda þjóðhöfðingja, fána ýmiss konar og þess háttar. Ég átta mig alveg á því að það kemur úr alþjóðasáttmálum og þess háttar, en refsiramminn þar er tvö ár, og sex ár ef brot er stórfellt. Það er snúið að hýsa vefsetur á íslensku léni og hvetja til þess að fólk brjóti þessi lög, eins og ég hef gert og mun gera. Ég hef gert það hér í pontu og mun gera það aftur. Ég hef hvatt fólk til að tala um Donald Trump Bandaríkjaforseta eins og ber að tala um hann, þ.e. á mjög slæman hátt, enda er hann hræðilegur forseti. En vandi minn er sá að sá mikilvægi þáttur af lýðræðislegri umræðu er strangt til tekið bannaður samkvæmt íslenskum lögum og refsiramminn er töluvert hár. Ég fæ því ekki betur séð en að strangt til tekið sé bannað að hvetja til þess að tala illa um Donald Trump eða álíka hrotta í öðrum þjóðríkjum.

Hitt atriðið skiptir ekki jafn miklu máli akkúrat núna en ég vík kannski að því í síðara andsvari.