151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[18:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að þetta er jú sá þáttur sem er talinn brjóta hina þjóðréttarlegu skuldbindingu. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á öðrum Norðurlöndum eru kannski hér á Íslandi, í samanburði við Svíþjóð sérstaklega, mest takmarkandi. Mjög vel hefur verið fylgst með því sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum, til að mynda hafa breytingarnar í Danmörku að því er virðist ekki hafa valdið neinu uppnámi. Í Noregi hefur nýtt regluverk ekki tekið gildi. Í Finnlandi gengu menn býsna langt fyrst og verð þjónustunnar lækkaði en síðan hækkaði það og þar hafa menn verið að gera breytingar vegna þess að þeir gengu mjög langt í breytingum. Það er það sem við erum ekki að gera hér. Það er rétt að geta þess, sem ég held að fáir átti sig kannski á, að það eru aðeins fjöldatakmarkanir á Akureyri, Árborgarsvæðinu, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Annars staðar á Íslandi eru ekki takmarkanir. Í Danmörku eru hins vegar settar upp hugsanlega einhverjar takmarkanir í einmitt mjög miklu dreifbýli til að tryggja lágmarksþjónustu. Engin slík skilaboð komu frá sveitarfélögum eða landshlutasamtökum á Íslandi en að mínu mati mætti alveg skoða slíkt. Það getur verið mögulega heimilt að takmarka stofnsetningarréttinn til að tryggja samfellda þjónustu á tilteknum dreifbýlum svæðum en ekki á þeim svæðum þar sem takmarkanirnar eru í dag. En ég hvet nefndina til að skoða hitt, hvort til greina komi að setja einhverjar takmarkanir á dreifbýl svæði til tryggja að lágmarki einhverja þjónustu þar.