151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[18:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, það er skylda að setja reglugerðir annars vegar og svo hins vegar heimildir, til að mynda hvað varðar stöðvaskyldu. Hér er verið að afnema stöðvaskyldu og er t.d. munur á því hvernig það er hérna eða í Danmörku, þar getur einn bíll verið á stöð. Hér er sett inn í löggjöf um stöðvar en það er ekki skylda að vera á stöð. Þá getur viðkomandi verið með einhverja starfsstöð en hann þarf að geta safnað þessum upplýsingum eins og hver annar. Hvort ein tölva dugar til, býst ég fastlega við. Það þarf einmitt að setja nánar fram í reglugerð hvaða hlutir það eru sem viðkomandi þarf að gefa upplýsingar um til Samgöngustofu svo hægt sé að hafa eftirlit með starfseminni. Síðan er það skörunin við stöðvaskylduna. Í mörgum tilvikum held ég, það er bara mín skoðun, að menn muni velja að vinna saman, í samvinnu, og vera þá í samstarfi við að deila hinum fasta kostnaði; markaðssetningu og utanumhaldi um reksturinn. En það verður ekki skylda eins og í dag. En ég hef trú á að margir muni velja þá leið og þess vegna er gengið frá þannig umgjörð í lögunum svo hægt sé að gefa út leyfi fyrir slíkar stöðvar. Það er einmitt munur á því og þeim sem reka sín eigin starfsstöð.