151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[19:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsöguna. Það eru tvær spurningar sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi hvort komið hafi til greina í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu; hrun í ferðaþjónustu og afkoma leigubílstjóra er öll með öðrum hætti en verið hefur — þó að hún hafi kannski ekki alltaf verið til að hrópa húrra fyrir er hún sérstaklega slæm um þessar mundir — hvort komið hafi til raunverulegrar skoðunar að fresta framlagningu frumvarpsins, sem sagt að leggja það ekki fram á meðan við búum við þetta svokallaða Covid-ástand.

Hins vegar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann meti stöðu þeirra sem í daglegu tali eru kallaðir skutlarar, samanborið við stöðu þess hóps sem hefur réttindi til leigubílaaksturs í dag, að þessu frumvarpi samþykktu eins og það liggur fyrir.