151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[19:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að staðan hjá leigubifreiðastjórum, eða þeim sem reka slíka þjónustu í dag og vinna við hana, er auðvitað mjög dapurleg, eins og hjá mjög mörgum öðrum stéttum sem treysta á meiri umsvif í samfélaginu og ekki síst erlenda ferðamenn. Þess vegna er afrakstur starfseminnar mjög dapurlegur í dag. Við vonum auðvitað öll og búumst við að við séum að glíma við tímabundið ástand, að það muni breytast. Eins og ég nefndi við kollega hv. þingmanns í fyrra andsvari við sömu umræðu er kannski ágætt að við séum glíma við lagasetningu. Við getum auðvitað frestað gildistöku þangað til að hér verður komið á eðlilegt ástand, eða haft gildistökuna með öðrum hætti. En ég held að það sé mikilvægt að við tökumst á við hvernig rekstrarumhverfið á að vera til lengri tíma. Það erum við að gera í svo mörgu öðru í samfélaginu. Við tökumst á við Covid-vandann eins og hann birtist okkur, en við erum líka að takast á við það að færast fram í tíma. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið skýri réttarstöðu þeirra sem fá atvinnuleyfi og rekstrarleyfi til að starfa við atvinnugreinina, og séu þar einhverjir aðrir utan rammans, hvorki með atvinnuleyfi né rekstrarleyfi, verði tekið á því. Þess vegna verður staða þeirra sem að hafa raunverulega atvinnu af slíkum rekstri og með leyfi á bak við sig betri en hún er í dag.