151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[19:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vona að í meðförum nefndarinnar muni menn draga fram að þessi lög séu góð fram á við, að þau uppfylli markmiðin sem þar eru sett, m.a. um öryggi, skilvirkni og jafnræði, sem skiptir miklu máli, og að þannig verði staða fólks í það minnsta ekki verri en hún er í dag. Við breytingar óttast menn auðvitað hvað gerist. Til dæmis hefur verið spurt: Af hverju þarf þessi starfsemi að njóta þeirrar verndar að vera með takmörkuð leyfi? Ýmsir hafa haft út á það að setja. Eins og ég nefndi hér í dag eru jafnréttissjónarmið ein af ástæðunum fyrir því að fallið er frá því að það sé skylda að hafa þetta að aðalatvinnu. Í dag eru karlmenn í meiri hluta en þegar lögin taka gildi er líka hægt að vera í hlutastarfi og auðveldara verður að starfa við þetta í afleysingum. Ekki þarf að hafa tiltekinn dagafjölda á bak við sig til að fá atvinnuleyfi (Forseti hringir.) eins og í því kerfi sem er í dag. Það verða sem sagt fleiri sem standa jafnfætis í kerfinu og auðvitað óttast þeir það sem fyrir eru í kerfinu. (Forseti hringir.) Samkeppniseftirlitið telur að allir aðrir (Forseti hringir.) í sjálfstæðum atvinnurekstri þurfi að sitja við svona opið borð. (Forseti hringir.) Og af hverju ekki þarna líka? (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar að öðru leyti?