151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannvirki.

17. mál
[19:18]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannvirki. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um mannvirki sem lúta að einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu byggingarmála. Í frumvarpinu er lagt til að innleidd verði flokkun mannvirkja eftir umfangi og eðli mannvirkjanna, lagt er til að krafa í mannvirkjalögum um faggildingu byggingarfulltrúa verði felld brott og að fyrirkomulag um opinbert eftirlit verði tekið til endurskoðunar auk þess sem lagt er til að þáttur rafrænnar stjórnsýslu í byggingarmálum verði skýrður og efldur.

Frumvarpið var á þingmálaskrá síðasta þings og var því útbýtt á Alþingi þann 23. júní sl., en ekki náðist að afgreiða það fyrir þinglok. Frumvarpið er óbreytt í öllum efnisatriðum en smávægilegar lagfæringar hafa verið gerðar á orðalagi þess.

Virðulegi forseti, Tilefni frumvarps þessa er að ríkisstjórnin setti það sem eitt af markmiðum sínum í sáttmála um stjórnarsamstarf, frá 30. nóvember 2017, að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði. Þar segir m.a.:

„Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum.“

Einnig skal geta þess að í aðdraganda kjarasamningaviðræðna veturinn 2018–2019 skipuðu stjórnvöld átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði Með þessu setti ríkisstjórnin af stað víðtækt samráð um húsnæðismál með aðkomu heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis.

Átakshópurinn setti fram tillögur í sjö flokkum í alls 40 liðum með skýrslu sem gefin var út í janúar 2019. Voru þær lagðar til grundvallar við gerð svonefndra lífskjarasamninga, samanber aðgerð 18 í yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, sem undirritaður var í apríl 2019. Er þar kveðið á um að ríkisstjórnin muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög og að Íbúðalánasjóði þáverandi, núverandi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, verði falið að halda utan um eftirfylgni tillagna átakshópsins í samráði við félagsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Hefur verkefnið fengið heitið Húsnæði fyrir alla.

Frumvarp þetta er samið af laganefnd sem var skipuð í febrúar síðastliðnum og var ætlað að taka til umfjöllunar þann hluta tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði sem snúa að byggingarmálum. Byggingavettvangur, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila, skilaði fyrstu tillögum sínum að breytingum í nóvember 2019 og var markmið þeirra að raungera hluta þeirra tillagna sem átakshópurinn hafði lagt fram í janúar 2019. Aðilar að byggingarvettvangi eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Framkvæmdasýsla ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun.

Í tillögum Byggingavettvangsins kom m.a. fram að nauðsynlegt væri að efla og auka þátt rafrænnar stjórnsýslu í öllum ferlum til þess að auka skilvirkni og gagnsæi. Mikilvægt væri að innleiða rafræn gagnaskil og rafrænar undirskriftir í öllum ferlum. Tillögurnar miðuðu að því að draga úr sóun, efla og einfalda eftirlit sem og að einfalda regluverk byggingarframkvæmda. Lagt var til að innleidd yrði flokkun mannvirkja eftir umfangi og eðli þeirra, að fyrirmynd annarra Norðurlanda, í þeim tilgangi að einfalda og efla eftirlit með mannvirkjum og gera það skilvirkara. Einnig væri hægt að nýta slíka flokkun til að stytta umsóknarferli þegar um tilteknar framkvæmdir væri að ræða, svo sem einfaldari framkvæmdir. Með slíkri breytingu verður auðveldara að stýra eftirliti með mannvirkjagerð og að greina hvar þurfi að auka og efla eftirlit. Laganefndin byggði efni frumvarpsins á tillögum Byggingarvettvangsins.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að lækka byggingarkostnað og hefur eftirlitsþátturinn verið nefndur sérstaklega í því samhengi. Nauðsynlegt er að efla eftirlit með framkvæmdum en á sama tíma þarf að lágmarka kostnað og tíma sem fer í slíkt eftirlit. Með breytingum á lögum um mannvirki sem gerðar voru fyrir rúmum tveimur árum, með lögum nr. 64/2018, voru stigin skref í átt að einfaldara eftirliti með því að auka innra eftirlit byggingarstjóra og fela þeim framkvæmd áfangaúttekta. Byggingarreglugerð hefur líka verið breytt í þessu skyni þannig að tekið er mið af stærð, umfangi og áhættu einstakra framkvæmda við mat á tíðni stöðuskoðana. Með því að innleiða flokka mannvirkja í byggingarreglugerð verður hægt að staðla slíkt mat og samræma um allt land. Flokkun mannvirkja gæti einnig nýst til einföldunar regluverks við leyfisveitingar.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á lögum um mannvirki: Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra skuli með reglugerð flokka mannvirki eftir stærð, vandastigi, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi með það að markmiði að hægt sé að aðlaga umsóknarferli og eftirlit að eðli og umfangi framkvæmda. Hægt er að einfalda ferli byggingarleyfisumsóknar og stjórnsýslu við minni og einfaldari verk með því að gera mismiklar kröfur eftir umfangi og eðli framkvæmda sem sótt er um leyfi fyrir. Þannig getur framkvæmdaferlið orðið einfaldara og styttra, með minna eftirliti, fyrir þau mannvirki sem teljast minni háttar samkvæmt flokkun en aftur ítarlegra, með auknu eftirliti, fyrir þau mannvirki sem teljast flókin og samfélagslega mikilvæg.

Í öðru lagi er hnykkt á því að rafræn skil á hönnunargögnum og rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferlis auk rafrænna skila á gögnum vegna mannvirkjagerðar verði að meginreglu við umsóknarferli um byggingarleyfi og notkun byggingargáttar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þetta er mikilvægur þáttur í því að ná fram þeim markmiðum stjórnvalda að minnka sóun með því að stuðla að rafrænum skilum á gögnum, rafrænum undirskriftum og rafrænum samskiptum.

Í þriðja lagi er lagt til að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, samkvæmt 19. gr. laganna, verði felld brott. Sveitarfélögin hafa flest talið að mikill kostnaðarauki felist í kröfu um faggildingu leyfisveitanda og hafa þau, ásamt fulltrúum atvinnulífsins, bent á að ákjósanlegra væri að skoða heldur útvistun verkefna til óháðra sérfræðinga, svo sem verkfræðistofa.

Ákvæði 19. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, um faggildingu leyfisveitenda, hefur verið í lögum um mannvirki frá gildistöku þeirra. Gert var ráð fyrir að yfirferð uppdrátta sem og úttektir á verkstað yrðu framkvæmdar af faggiltum aðila í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka, annaðhvort af faggiltum skoðunarstofum eða af byggingarfulltrúum sem hefðu hlotið faggildingu til að annast slíkt eftirlit. Ekki hefur verið sátt um ákvæðið og hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt Félagi byggingarfulltrúa m.a. vísað til þess að sveitarfélögin telji áætlaðan kostnað þeirra vegna faggildingarinnar hafa verið verulega vanmetinn við mat á áhrifum laganna. Þá hafa ýmsir hagsmunaaðilar bent á að krafa um faggildingu eftirlitsaðila sé hvorki til þess fallin að einfalda stjórnsýslu og eftirlit né að lækka byggingarkostnað.

Sveitarfélög hafa þann kost samkvæmt núgildandi lögum að útvista þáttum byggingareftirlits til faggildrar skoðunarstofu samkvæmt ákvæðum 20. gr. laganna og komast þannig hjá kostnaði vegna faggildingu embættanna sjálfra. Enn sem komið er hefur þó engin skoðunarstofa fengið faggildingu til að sinna slíkum verkefnum og geta byggingarfulltrúar því ekki falið öðrum yfirferð hönnunargagna samkvæmt umræddri lagagrein. Þetta getur og hefur reyndar skapað töluverðan vanda þegar um er að ræða stórar framkvæmdir þar sem séruppdrættir skipta þúsundum og ljóst er að byggingarfulltrúaembættin hafa hvorki þekkingu né bolmagn til að sinna því eftirliti. Hafa þau þá þurft að leita til annarra skoðunaraðila þrátt fyrir að slík heimild sé ekki til staðar í lögunum. Því er nauðsynlegt að fundin verði lausn sem gerir sveitarfélögunum kleift að fela fagaðilum utan byggingarfulltrúaembættanna yfirferð hönnunargagna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Rétt er að árétta að þessi lausn er ekki endanleg þar sem fyrirhuguð er heildarendurskoðun á fyrirkomulagi eftirlits með framkvæmdum við mannvirki, en bent hefur verið á að víðtæk krafa um faggildingu eftirlitsaðila leiði til flóknari stjórnsýslu og aukins kostnaðar í byggingariðnaði.

Ég hef ákveðið að fela Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að endurskoða framkvæmd og skipulag eftirlits með mannvirkjagerð að höfðu víðtæku samráði við alla hagaðila. Stefnt verður að því að niðurstöður þeirrar endurskoðunar liggi fyrir fyrir lok árs 2020. Þá er einnig miðað að því að hægt verði að nýta flokkun mannvirkja til að einfalda eftirlit og yrði því ákjósanlegt að samtvinna vinnu við endurskoðun eftirlitskerfis við mótun reglugerðarákvæða um flokkun mannvirkja.

Virðulegi forseti, Með frumvarpi þessu eru stigin ákveðin skref í þá átt að stuðla að einfaldara og skilvirkara regluverki í byggingariðnaði. Rafræn stjórnsýsla mun auka skilvirkni og gagnsæi og minnka kostnað og umfang stjórnsýslu byggingarfulltrúa. Þá er líklegt að byggingarkostnaður muni lækka vegna einfaldara og hnitmiðaðra eftirlits sem verði framkvæmt af hinu opinbera í stað faggiltra skoðunarstofa. Í stærri og flóknari verkum er gert ráð fyrir því að byggingarfulltrúar hafi heimild til þess að bjóða út yfirferð séruppdrátta og þannig ættu að fást best gæði slíkrar yfirferðar með minnstum kostnaði.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir helstu efnisatriði málsins sem við ræðum. Að lokinni þeirri umræðu sem fram undan er legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.