151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannvirki.

17. mál
[19:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir framsöguna. Það er ánægjulegt að fá fram sjónarmið í gegnum samráðsvettvanginn og í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar þegar sambærilegt mál, sem innifól faggildingarákvæðin sem hér eru felld á brott, var afgreitt. Þá lagði nefndin mikla áherslu á að einfalda eftirlitið, gera það — ég ætla ekki að nota orðið skilvirkt heldur hreinlega bara vitrænt. Það er auðvitað ekkert vit í því að leggja að jöfnu eftirlit með risabyggingum eins og Landspítalanum og Hörpu, af því að þær tvær framkvæmdir eru nefndar í greinargerð, og síðan einbýlishúsum. Við fyrstu yfirferð á þessu sýnist mér því margt vera jákvætt sem ég vona að hv. velferðarnefnd hnykki á, eða a.m.k. að hún stígi ekki til baka í afstöðu sinni því að nú er búið að færa málaflokkinn frá umhverfisráðherra yfir til velferðarráðherra. Það er því önnur nefnd sem fjallar um málið núna.

En mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að nauðsynlegt er að leggja mikið upp úr því að byggingar og framkvæmdir almennt verði unnar á sem hagkvæmastan máta, hvernig vinnunni vindur fram sem snýr að regluumhverfi mannvirkjageirans sem OECD er að vinna. Minn skilningur var að verið væri að horfa til hagræðingar og einföldunar regluverks í þeirri vinnu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvar sú vinna er stödd í dag.