151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

höfundalög.

136. mál
[19:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á höfundalögum. Þær breytingar varða takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun. Tilefni og tilgangur frumvarpsins er að samræma reglur höfundalaga um gerð og not eintaka af höfundaréttarvernduðum verkum á aðgengilegu formi fyrir þá sem stríða við sjón- eða lestrarhömlun, við alþjóðareglur um það efni og tryggja þannig að hægt sé að nota slík eintök á milli landa EES-svæðisins og annarra aðildarlanda alþjóðasáttmála frá 2013, sem í daglegu tali er nefndur Marakess-sáttmálinn. Hann hefur það að markmiði að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum.

Með frumvarpinu er þannig stefnt að því að undirbúa aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum og jafnframt að innleiða efni ESB-tilskipunar frá 2017 sem fjallar um leyfilega notkun á höfundaréttarvörðum verkum og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi: Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi ákvæðum 19. gr. höfundalaga, um takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lestrar, verði breytt í samræmi við ákvæði Marakess-sáttmálans um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum og ákvæði ESB-tilskipunar um sama efni.

Lagt er til að settar verði í höfundalög fimm nýjar greinar, 19. gr. a til 19. gr. e, sem varða gerð eintaka af höfundaréttarvörðum verkum á aðgengilegu formi fyrir þá einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Í þessum nýju greinum er í fyrsta lagi að finna skilgreiningar á hugtökum, í öðru lagi ákvæði um hverjir geti gert slík eintök og hverjir notað þau, í þriðja lagi ákvæði um bætur til höfunda og í fjórða lagi ákvæði um starfsreglur viðurkenndra eininga sem hafa heimild til að gera eintök á grundvelli takmörkunarinnar. Þær starfsreglur eiga að tryggja að eintök sem gerð eru á grundvelli þeirra fari ekki í hendur annarra en einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða og jafnframt að tryggja upplýsingagjöf um gerð og notkun slíkra eintaka.

Nýju ákvæðin fela ekki í sér breytingu á 19. gr. núgildandi höfundalaga að öðru leyti en því að lagt er til að heimilað verði að nota eintök sem gerð eru í aðildarríkjum Marakess-sáttmálans og aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt takmörkunum sem nú er að finna í 19. gr. hér á landi og öfugt. Mikilvægt er að skýrt sé kveðið á um slík not á milli landa því að ein af aðalreglum höfundaréttar er að eintök sem gerð eru á grundvelli takmörkunar á einkarétti höfunda megi aðeins nota í því landi sem takmörkunin gildir. Því er mikilvægt að samræma takmörkunina í öllum þeim ríkjum þar sem á að vera hægt að nota slík eintök og tryggja að skýrt sé kveðið á um að nota megi slík eintök í aðgengilegu formi sem gerð eru á grundvelli takmörkunar í öðrum EES-ríkjum og aðildarríkjum Marakess-sáttmálans. Þannig er stefnt að því á alþjóðavísu að aðgengi þeirra sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða að efni í aðgengilegu formi verði aukið, bæði erlendu og innlendu. Í því sambandi má nefna að árið 2016 mat Alþjóðahugverkastofnunin að í heiminum væru um 285 milljónir einstaklinga sem ættu við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, en einungis 1–7% af bókum heimsins væru til á aðgengilegu formi fyrir þá einstaklinga. Marakess-sáttmálanum, tilskipuninni og einnig þessu frumvarpi er ætlað að auka hlutfall aðgengilegs efnis til að tryggja aðgengi þeirra sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að etja og geta þeir þá óhindrað nýtt sér prentað mál.

Aðrar breytingar varða framsetningu og skilgreiningar í takmörkunarákvæði höfundalaga vegna einkagerðar og dreifingar verka handa þeim sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að etja til samræmis við sáttmálann og tilskipunina, auk minni háttar breytinga á öðrum ákvæðum höfundalaganna þannig að þau endurspegli ný ákvæði, 19. gr. a–e. Þær breytingar eiga að auka skýrleika varðandi efni takmörkunarinnar og hvernig henni er beitt.

Við gerð frumvarpsins var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila auk þess sem frumvarpsdrögin voru sett í samráðsgátt þar sem öllum gafst tækifæri á að koma með athugasemdir. Einnig var fundað með helstu hagsmunaaðilum, þ.e. fulltrúum Hljóðbókasafnsins, fulltrúum höfunda og fulltrúum útgefenda, eins og nánar er greint frá í almennri greinargerð með frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir felur í sér mikilvæga samræmingu á reglum höfundalaga um gerð og not eintaka af höfundaréttarvernduðum verkum á aðgengilegu formi fyrir þá sem stríða við sjón- eða lestrarhömlun, við alþjóðlegar reglur um það efni. Sú samræming á að tryggja aukið aðgengi að efni á aðgengilegu formi, sérstaklega erlendu efni, hér á landi og á EES-svæðinu og í öllum aðildarríkjum Marakess-sáttmálans. Í greinargerð með frumvarpinu er farið ítarlega yfir bakgrunn frumvarpsins, efni alþjóðasáttmálans og tilskipunarinnar, almenn rök fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til, auk þess sem rækilega er fjallað um hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig og möguleg álitaefni umfram það sem ég hef tæpt á í ræðu minni.

Virðulegur forseti. Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.