151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel einfaldlega mjög mikilvægt að þegar við erum með opinbert heilbrigðiskerfi, sjúkratryggingar — við greiðum í raun og veru fyrir heilbrigðistryggingar okkar með sköttunum — sé eðlilegt að nálgast málið þannig að við séum með í gildi á hverjum tíma tryggingu og við eigum að geta innheimt þá tryggingu hjá heilbrigðisstofnunum og öðrum innan heilbrigðiskerfisins sem bjóða fram slíka þjónustu. Sjúkratryggingar eru þá milliliðurinn sem gengur úr skugga um að þeir sem vilja bjóða fram slíka þjónustu uppfylli allar gæðakröfur og annað þess háttar eða létta af okkur áhyggjum af slíkum hlutum og eru í raun og veru bara að millifæra fjárhæðir fyrir okkur það sem við erum þegar búin að greiða. Þannig horfi ég á þetta kerfi. Það eru hins vegar ákveðnir þættir sem við getum aldrei útvistað frá spítölunum. Það er öll grunnþjónustan, stóru aðgerðirnar, það sem liggur miðlægt á þjóðarsjúkrahúsinu. Við erum ekki að leitast við að brjóta það upp. En varðandi allt hitt, þar sem við þurfum að vera sveigjanlegri og það sem eru meira endurtekningar, rútínuaðgerðir, þar eigum við að leita leiða til að spara.