151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

viðbrögð við stjórnsýsluúttekt á TR.

[10:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég fagna úttekt Ríkisendurskoðunar og minni á, rétt eins og þingmaðurinn kom inn á, að fulltrúar allra stjórnmálaflokka komu að þessu. Ég sagði á sínum tíma að það væri gríðarlega mikilvægt, mjög jákvætt að fá Ríkisendurskoðun til að skoða hvaða úrbætur væri hægt að gera þarna. Það eru ýmsar athugasemdir, líkt og þingmaðurinn nefndi, sem hægt er að bregðast við. Við munum fara í það og erum að undirbúa það. Það má til að mynda, ef við tökum það sem lýtur að endurútreikningi, bæta ýmislegt, m.a. í samskiptum milli opinberra aðila, líka við lífeyriskerfið og skattinn. Það má færa þau meira á stafrænt form. Það er gríðarlega mikilvægt því að samskipti þarna á milli geta dregið úr endurútreikningi. Það hafa verið stigin skref í þá átt. Við sjáum á uppgjöri 2019 að sá fjöldi sem er að fá endurútreikning hefur verið að dragast saman á milli ára. Eitthvað hefur því verið gert í þessum málum svo að því sé haldið til haga. En við munum taka skýrsluna til skoðunar, og erum að gera það. Og með hvaða hætti? Við getum brugðist við því í samstarfi við Tryggingastofnun.

Hvað varðar heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins höfum við verið í samtali um það. Það er eitt af því sem var á þingmálaskrá á síðasta vorþingi en hefur ekki náðst samkomulag um við hlutaðeigandi aðila. Þess vegna hefur markmiðið verið að gera það í minni skrefum. Mönnum hefur fundist skrefin sem átti að stíga of stór, sambærileg við það sem gert var fyrir aldraða á sínum tíma. Þess vegna höfum við verið að undirbúa breytingar í minni skrefum. Þó að það sé ekki á þingmálaskrá núna á þessu haustþingi tjáði ég velferðarnefnd í gær (Forseti hringir.) að það kynnu að verða breytingar sem kæmu inn á vorþingi.