151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

viðbrögð við stjórnsýsluúttekt á TR.

[10:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar snúa að mörgum þáttum og þær snúa ekki eingöngu að grundvallarbreytingum almannatryggingakerfisins. Þær snúa líka að kerfisbreytingum sem hægt er að gera, eins og ég sagði áðan, í samskiptum milli stofnana til þess að eyða gráum svæðum og annað. Það er það sem við höfum verið að vinna að og ég fór yfir það í fyrra andsvari að við hefðum séð ákveðnar jákvæðar breytingar í því. Við höfum líka verið að vinna að breytingum sem hafa komið í skrefum við að draga úr skerðingum og fleiri breytingar hafa komið hingað inn. Það er því algerlega rangt að þessu hafi ekki verið sinnt innan ráðuneytisins í tíð þessarar ríkisstjórnar. En það er gríðarlega gott að fá þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég studdi það mjög á sínum tíma og tjáði velferðarnefnd að mikilvægt væri að fá hana vegna þess að þá gætu þær breytingar sem þyrfti að ráðast í orðið markvissari. Við erum með fjárveitingar inni núna, m.a. til þess að bæta tölvukerfi og búnað sem Tryggingastofnun er með þannig að við höfum verið að stíga skref í þessa veruna. (Forseti hringir.) Það er beinlínis rangt að það hafi ekki verið gert. En hins vegar má alltaf gera betur. Þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar er mjög gott (Forseti hringir.) innlegg inn í þá vinnu og við munum taka hana alvarlega.