151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

innflutningur landbúnaðarvara.

[11:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru þó kannski ekki eins nákvæm og ég hefði kosið, en látum það liggja milli hluta. Ég vil beina þá í framhaldinu annarri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra. Hún varðar það að á opinberum vettvangi hafa komið fram þau sjónarmið frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, a.m.k. einum, hæstv. framsóknarráðherra, að rétt viðbragð við þessari stöðu, sem virðist ekki vera fullkönnuð eða rannsökuð, sé að segja upp tollasamningi við Evrópusambandið. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að segja upp þessum samningi? Jafnframt vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort það komi til greina af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í þá vegferð að segja upp þessum tollasamningi.