151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

innflutningur landbúnaðarvara.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ef fyrra svar mitt var ekki nægilega skýrt vil ég bara bregðast aðeins við því. Við í fjármálaráðuneytinu fáum einstaka sinnum ábendingar um tilvik sem þurfi að skoða. Við höfum látið skoða slík tilvik hvert fyrir sig. Ostarnir eru dæmi um það og gerðar voru breytingar á tollflokkum í framhaldinu. Síðan höfum við fengið almenna ábendingu um að tölur frá Evrópusambandinu, um útflutning frá Evrópusambandinu til Íslands, séu aðrar en okkar eigin tölur um innflutning þaðan. Þetta hef ég verið með í sérstakri skoðun sem gefur til kynna að mismunur sé á þessum tölum. Við þurfum að kafa dýpra ofan í það til þess að skilja það betur og það mun ég láta gera. Ég tel að það sé alveg ljóst að áform okkar um að nýta tollasamninginn við Evrópusambandið hafa ekki gengið eftir hvað varðar útflutning okkar Íslendinga og breytingin sem hefur orðið Evrópusambandsmegin við það að Bretar stigu út úr Evrópusambandinu kallar líka á einhver viðbrögð. Á þessari stundu hefur engin ákvörðun verið tekin um að segja upp þessum samningi af okkar hálfu. (Forseti hringir.) Ég tel að það ætti miklu frekar að tala um að reyna að endursemja (Forseti hringir.) og reyna að bregðast við því sem breytt er frá því að samningurinn var gerður. En í augnablikinu er eingöngu um að ræða óformlegt samráð við alla hagsmunaaðila.