Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

frumvarp um kynrænt sjálfstæði.

[11:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú í vikunni mælti hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um jafna stöðu og rétt kynjanna. Frábært mál. Þá mælti forsætisráðherra einnig fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Í greinargerð um einstakar greinar frumvarpsins segir orðrétt um 1. gr., með leyfi forseta:

„Forhúðaraðgerðir í tilvikum þar sem forhúð er dæmigerð og þar sem slíkar aðgerðir kunna að vera gerðar eða fyrirhugaðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum falla utan gildissviðs frumvarpsins og hafa ákvæði frumvarpsins því engin áhrif á það hvort slíkar aðgerðir eru gerðar eða heimilar.“

Hæstv. forsætisráðherra sagði líka að ef þetta ætti að vera inni í frumvarpinu yrði að gera sérlög um það sem myndu banna svona aðgerðir. Sem betur fer höfum við séð til þess að ofbeldisaðgerðir á kynfærum stúlkna af trúarlegum ástæðum eru bannaðar hér.

Hæstv. félags- og barnamálaráðherra mun leggja fram frumvarp um vernd barna í haust. Mun þar verða vernd fyrir börn, þ.e. að drengir fái vernd fyrir því ofbeldi að það verði gerðar á þeim forhúðaraðgerðir af trúarlegum ástæðum? Og ef ekki, hvers vegna ekki? Hefur hæstv. barnamálaráðherra mótmælt því sem kemur fram í 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, þessu ofbeldi gegn drengjum? Þarna er í fyrsta skipti verið að setja í lög leyfi fyrir þessum aðgerðum. Ég spyr: Er hæstv. barnamálaráðherra sáttur við svona mál? Hvað mun hann gera í þessum málum til að vernda öll börn?