Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

frumvarp um kynrænt sjálfræði.

[11:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir svarið og vona svo heitt og innilega að í þessum frumvörpum um vernd barna verði þetta ekki tekið út. Ég vona líka heitt og innilega að ákvæðið um að leyfa þessar aðgerðir, hreinlega bara að leyfa þær með þessari klásúlu í 1. gr. frumvarpsins, verði tekið til baka. En það er eitt sem er alveg óskiljanlegt fyrirbrigði: Hvers vegna í ósköpunum fer þetta mál til allsherjar- og menntamálanefndar en ekki velferðarnefndar? Þetta er klárt velferðarnefndarmál og ég spyr: Hver ræður því? Er það ekki óeðlilegt? Ég segi bara fyrir mitt leyti að við erum hérna hvað eftir annað að básúna jafnrétti, jafnrétti, jafnrétti. Er það bara fyrir suma? Er það bara í sumum málum? Gildir það ekki öllum málum og þá sérstaklega gagnvart börnum, eða eru drengir þar undanskildir?