151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[11:10]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég kynni hér einstaklega jákvætt og mikilvægt mál sem þingflokkur Miðflokksins stendur allur að. Málið er raunar endurflutt. Það var orðið brýnt þegar það var flutt hér í fyrra en þess heldur nú, enda sjáum við svo um munar þörfina fyrir sparnað í rekstri ríkisins og aukna verðmætasköpun í samfélaginu, aukin tækifæri fyrir fyrirtæki til að hefja starfsemi eða fjölga fólki og vonandi bæta kjör. Nú er þörfin meiri en hún hefur verið um langt skeið og því vona ég að þetta mál fái hraða afgreiðslu á þinginu. Þetta er þingsályktunartillaga um tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Sjálf tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2021.“ — Og seinna má það nú ekki vera.

Það mun kannski taka einhvern tíma að undirbúa þetta, en sem betur fer er búið að ráðast í heilmikla undirbúningsvinnu eins og ég mun fara yfir á eftir.

Þetta er liður í baráttu okkar við báknið því að báknið vex líklega í réttu hlutfalli við regluverkið og útgjöldin, kostnaðurinn við það að sama skapi. En ekki aðeins kostnaður ríkisins heldur kostnaður alls almennings af því að þurfa að fást við báknið sem gerir það oft og tíðum erfitt að ráðast í nýja atvinnustarfsemi og reka fyrirtæki þegar og ef tekist hefur að koma þeim af stað. Það gerir það líka erfitt fyrir einstaklinga og fyrirtæki, minni fyrirtæki sérstaklega, að fylgjast með réttarstöðu sinni og átta sig á lagaumgjörðinni.

Það er oft sagt að þegar lög eru orðin það flókin að almenningur skilji þau ekki hjálparlaust þá séu menn komnir í ógöngur. Löggjöf þarf að vera skýr og hún þarf að vera skiljanleg en löggjöf hefur hins vegar vaxið stjórnlaust, má segja, og báknið með. Þetta er þess vegna mál sem skiptir miklu máli varðandi lífskjör í landinu, varðandi stöðu ríkissjóðs og framtíðaruppbyggingu atvinnulífs hér á landi. En þetta skiptir líka mjög verulegu máli fyrir daglegt líf fólks því að í allt of mörgum tilvikum upplifa menn sig nánast í þjónustuhlutverki við ríkið þegar raunin á að vera þveröfug. Það er skylda ríkisins, stjórnkerfisins, að þjónusta almenning en því miður hefur þróunin verið í aðra átt. Það er orðið flókið að vera til, verður að segjast. Með þessu er því tekið á mjög veigamiklum og aðkallandi málum.

Þetta mun hafa gríðarlega mikil og jákvæð áhrif, verði þetta samþykkt. En ég bendi á, eins og kom fram þegar ég las ályktunartillöguna sjálfa, að við eftirlátum ríkisstjórninni að koma með útfærsluna hér inn í þingið. Það er gert til þess að auka líkurnar á að málið komist áfram því að við þekkjum það af reynslunni að ríkisstjórn vill jafnan frekar afgreiða og samþykkja mál frá sjálfri sér en frá öðrum. Ríkisstjórnin má eiga þetta, við færum henni þetta sem gjöf og ég held að það gæti hjálpað henni heilmikið í komandi kosningum ef ráðist yrði í þessar aðgerðir.

Þá spyr hæstv. forseti e.t.v.: Hvers vegna er Miðflokkurinn að hjálpa ríkisstjórninni? Er það skynsamlegt? En við teljum þetta einfaldlega það mikilvægt mál að það skipti ekki máli hver leggur það fram á endanum fullbúið, það sé það brýnt að þetta nái fram að ganga.

Ég vitna hér aðeins í sjálfan mig, með leyfi forseta, frá því að ég kynnti þetta mál í fyrra. Þá sagði ég að yrði þetta mál samþykkt og innleitt í samræmi við það sem lagt væri upp með hefði það gríðarlega mikil og jákvæð áhrif, t.d. á byggðamál og atvinnumál, hvort sem það væri landbúnaður, iðnaður, ferðaþjónusta, sjávarútvegur eða annað, mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu og lífsgæði þess almennt, á verðmætasköpun á Íslandi, á tekjur og rekstur ríkisins, á samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum, meira að segja á húsnæðismál, heilbrigðismál og þannig mætti lengi telja. Þetta væri mál sem gæti haft mjög umfangsmikil og jákvæð áhrif á flestum sviðum samfélagsins og væri aðkallandi. Þetta sagði ég fyrir rúmu ári og nú er þetta mál ekki bara aðkallandi heldur bráðnauðsynlegt til að bregðast við þróun margra undanfarinna ára en einnig ástandinu sem við erum að takast á við.

Eins og ég nefndi hér í upphafi hefur heilmikil undirbúningsvinna farið fram. Í ríkisstjórn þáverandi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á árunum 2013–2016 var þetta áhersluatriði hjá okkur. Vinna hófst strax 2013 við að takast á við báknið, minnka báknið, draga úr regluverkinu, og það skilaði sér m.a. í mjög ígrundaðri og umfangsmikilli greinargerð og eins í leiðarvísi, handbók, sem ætlunin var að ríkisstofnanir nýttu sér til þess að spara og veita betri þjónustu á sama tíma. Því miður virðist sú handbók hafa farið ofan í skúffu eða undir stól víða en þessi vinna mun nýtast vel nú sem og mjög ítarleg greinargerð um aðgerðaáætlun til að draga úr regluverki sem birt var á árinu 2014.

Þetta var allt komið af stað, komið á góðan rekspöl, en hefur því miður ekki verið sinnt sem skyldi undanfarin ár. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur reyndar boðað að hún vilji draga úr regluverki og af 180 málum ríkisstjórnarinnar á þessu þingi eru þrjú mál, þrjú frumvörp, sem sérstaklega er ætlað að einfalda regluverk, tvö á sviði ferðamála- og iðnaðarráðherra og eitt á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í fyrra voru flutt og samþykkt sambærileg mál en þau snúast fyrst og fremst um að taka til í skjalageymslunni, ef svo má segja, og fella úr gildi lög sem eru hvort eð er ekki virk, sem hafa enga þýðingu lengur vegna þess að þau taka til að mynda til atriða sem eru leyst, hafa klárast, eiga ekki lengur við. En það þarf að ganga miklu lengra en þetta. Það þarf að takast á við kerfið sem er virkt, sem er að leggja stein í götu fólks og fyrirtækja í landinu og gera mönnum erfitt fyrir, hvort sem er í daglegu lífi eða í því að hefja atvinnurekstur og ráða fólk til starfa og skapa verðmæti. Ekki ætla ég að gera lítið úr því að ríkisstjórnin taki til í skjalaskápunum og hendi út því sem fallið er úr gildi. En það þarf miklu meira til að koma ef við eigum að ná að takast á við stjórnlausan vöxt báknsins.

Aftur ætla ég að fá að vitna stuttlega í sjálfan mig frá því í fyrra, með leyfi forseta:

„Á ferðum mínum um landið í sumar skoðaði ég mörg fyrirtæki og hitti margt fólk.“ — Þetta var þegar enn var hægt að fara um landið og hitta fólk og koma við í fyrirtækjum og vonandi koma þeir tímar fljótlega aftur. — „Í langflestum tilvikum höfðu menn orð á því, hvort sem þeir ráku fyrirtæki eða voru bara að reyna að lifa lífi sínu, hvað kerfið, báknið, væri orðið íþyngjandi á Íslandi og gerði mönnum erfitt fyrir á öllum mögulegum sviðum. Það var til að mynda nefnt um allt land að þeir sem vildu láta til sín taka, vildu byggja eitthvað upp í sínu byggðarlagi, vildu búa til störf fyrir aðra og skapa ný verðmæti — sem er auðvitað það mikilvægasta í byggðamálum, að menn hafi tækifæri til slíks um allt land — mættu allir hindrunum. Stjórnkerfið, ríkið, var í huga þessa fólks miklu meira að leggja steina í götu þessara þörfu og mikilvægu verkefna en að ryðja þeim leið. Þessu þarf að breyta, snúa við, svoleiðis að ríkið upplifi að það sé í þjónustuhlutverki við almenning í landinu en ekki öfugt. Takist okkur það munum við leysa úr læðingi mikla verðmætasköpun og gera lífið auk þess einfaldara og skemmtilegra fyrir allan almenning.“

Þetta var fyrir ári og nú er þörfin orðin enn meiri og áhrifin munu fyrir vikið skipta jafnvel enn meira máli en áður takist okkur að fara af stað með þetta sem allra fyrst. Auðvitað er engin kvöð um að ríkisstjórnin skili þessu á síðustu stundu. Þvert á móti vona ég að þau skili þessu eins fljótt og auðið er, enda undirbúningsvinnan tilbúin eins og ég nefndi. Þetta mun hafa í för með sér mikinn sparnað fyrir ríkið og nú, þegar við erum að takast á við mestu niðursveiflu í 100 ár líklega, veitir ekki af slíku. Vöxtur báknsins og ofvöxtur reglugerða felur nefnilega í sér mjög raunverulegan kostnað fyrir ríkissjóð og verulegan kostnað, útdeilingu fjármagns sem væri betur nýtt í annað, svo að ekki sé minnst á hvað það dregur úr verðmætasköpun, úr því að fólk treystir sér til að stofna fyrirtæki, ráða fólk í vinnu o.s.frv. Svo má líka meta tíma fólks til verðmæta. Við tölum stundum um að það sé mikilvægt að gefa fólki meiri frítíma til að vera með fjölskyldu sinni og gera eitthvað skemmtilegt og gagnlegt fyrir fjölskylduna og þetta mun líka hafa áhrif þar. Ef menn þurfa ekki að eyða heilu dögunum í viðureign við báknið hafa menn meiri frítíma og verða líka glaðari svoleiðis að þetta mun hafa víðtæk áhrif á samfélagið, bæta stöðu þess á allan hátt, almennings, fyrirtækja og ríkissjóðs.

Herra forseti. Þetta er sannarlega tímabært mál og hefur verið það lengi. En nú er mikil nauðsyn á því að ríkisstjórnin láti hendur standa fram úr ermum, drífi í því að klára þetta verkefni. Hún getur lagt það fram hér og verið viss um stuðning okkar verði þessu fylgt. Það yrði mikið fagnaðarefni fyrir allan almenning og gæti, eins og ég nefndi, gagnast ríkisstjórninni þegar líður að kosningum. En það verður þá bara að hafa það. Þetta er það mikilvægt mál. Við þurfum að huga að almenningi í landinu umfram allt og því leggjum við þetta fram í þeirri einlægu von að ríkisstjórnin sé a.m.k. tilbúin til að taka við þessu og vinna úr því.