151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[11:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu ágæta máli þar sem stjórnvöldum verður falið að gera aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Kallað er eftir þessu víða í samfélaginu, fólk kvartar yfir því að það sé flókið og erfitt að fara í ýmsar framkvæmdir og sækja þjónustu hjá ríkisvaldinu og sveitarfélögum, kerfinu eins og það er kallað einu nafni, þannig að ég fagna þessari tillögu afskaplega mikið enda er ég meðflutningsmaður á henni og ætlaði að leggja hér nokkur orð í púkkið um málið.

Vöxtur báknsins virðist stjórnlaus og hefur svo lengi verið, jafnvel þótt stjórnvöld hafi það að markmiði, hver ríkisstjórnin á fætur annarri, að hamla því að svo verði. Jafnvel þótt stjórnvöld hafi á dagskrá sinni og í stefnu að gera þetta þá vex það yfirleitt algerlega úr öllum böndum og við höfum séð það margoft, meira að segja þegar samdráttur er. Hvað er til ráða? Það má ekki stofna stjórn eða nefnd án þess að henni fylgi yfirbygging. Það þarf skrifstofur og forstöðumann. Forstöðumaðurinn þarf aðstoðarmann, þeir þurfa báðir einhvern skrifstofumann til að svara í síma og passa skjölin og raða þeim í möppur. Það þarf að kaupa ýmsan búnað, leigja eða kaupa húsnæði og fyrr en varir eru komnir æðimargir starfsmenn. Við höfum séð það gerast og það eru mörg skemmtileg og fræg dæmi um þetta. Eitthvað sem er skúffa í dag er orðið þriggja hæða stofnun örskömmu síðar. Það er sorglegt og oft þjónar þetta alls ekki þeim tilgangi sem til er ætlast, að þjónusta almenning.

Ég hef haft áhyggjur af þessu mjög lengi. Ég hef unnið í stjórnsýslunni í 30 ár og hef reynslu af þessu þótt stofnunin mín hafi ekki vaxið meðan ég starfaði þar, sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum. Ég held að starfsmönnum þar hafi fækkað ár frá ári. Ég hef ekki tölur í höfðinu um það nákvæmlega en ég held þeim hafi fækkað ansi mikið á þeim 16 árum sem ég var í því starfi. Hvort það sé mér til hróss eða lasts veit ég ekki en a.m.k. óx hún ekki þar og það er nokkuð sem ég hef einnig talað um. Stofnanir úti á landsbyggðinni hafa tilhneigingu til þess að minnka og dragast saman og vera lagðar niður vegna þess að það er einhvers konar aðdráttarafl í höfuðborginni. Stofnanir eru stofnsettar hér og hér verða þær og vaxa stjórnlítið. Það er akkúrat öfugt úti á landi, þar minnka þær og eru lagðar niður. Það er eilíf varnarbarátta að þessu leytinu til. Þetta er kannski í samhengi við ýmislegt annað eins og t.d. atkvæðisrétt dreifbýlis og þéttbýlis, hér er tilhneigingin svona, atvinnumöguleikarnir meiri. Stjórnsýslan er öll hér, hún er öll á höfuðborgarsvæðinu. Menn þurfa bara að keyra í fimm mínútur, þá eru þeir búnir að hitta þingmann eða ráðherra. Því er ekki að heilsa úti á landi.

Ég hef stundum viðrað þá hugmynd mína að besta byggðastefnan væri auðvitað sú að flytja ráðuneyti einfaldlega út á land. Það má gera sársaukalítið á löngum tíma með aðlögun. Ég er ekki að tala um öll ráðuneyti heldur kannski eitt eða tvö í byrjun þar sem innviðir eru fyrir hendi, eins og t.d. á Akureyri. Þar eru allir innviðir fyrir hendi og öflugt stjórnkerfi þannig að ég held að Akureyringar réðu alveg við tvö eða þrjú ráðuneyti af minni gerðinni, enda er það þannig, herra forseti, að stjórnsýslan er meira og minna að verða rafræn. Samskipti eiga sér stað í síma og í tölvum, bréf fara rafrænt á milli, meira að segja svo nú að það stofnast varla mál ef rafræn fyrirspurn eða beiðni kemur. Það er ekki hægt að finna málið. Það er horfið, finnst ekki. Þess vegna væri þetta enn frekar auðvelt í dag en kannski fyrir tíu árum og þetta er auðvitað eina rétta byggðastefnan, að flytja ráðuneyti út á land. Ráðuneytin eru auðvitað að þjónusta alla landsmenn, ekki bara höfuðborgarbúa. Þessi nálægð við löggjafarsamkunduna og æðri stig dómstólanna, þessi nálægð hér í höfuðborginni, í þessari litlu borg á alþjóðlegan mælikvarða, er að mínu mati skaðleg. Menn hittast í sömu partíunum, þeir skála og eru sammála. Þarna gerast hlutirnir, skoðanirnar myndast og menn fara eins og rollur fram af bjargi eins og gerðist í síðasta hruni. Þar voru allir sammála, í öllum partíunum. Það var alveg sama hve mörg voru haldin því að það var alltaf sama fólkið sem var að spjalla saman. Ég held að væri hollt fyrir þessa þjóð að stjórnkerfið yrði flutt meira út á land, líka fyrir umræðuna í landinu. Ég held að það væri umhugsunarefni fyrir okkur hér á þingi að hugsa þetta út frá öðrum vinklum en við höfum gert hingað til.

Ég ætlaði að tala um ýmislegt um báknið en fór kannski í aðra sálma en það er alveg sama hvað gerist, ef stofnað er nýtt embætti, stofnun, nefnd, ráð, stjórn eða sjóður, það þarf alltaf að byggja utan um það einhvers konar bákn, lítið í byrjun, en það vex mjög hratt. Við höfum orðið vör við það, ég er búinn að vera hérna í þrjú ár, að sífellt er verið að koma á laggirnar einhverju nýju af þessu tagi. Það er sjaldan sem embætti eða stofnanir eru lagðar niður eða sameinaðar. Það gerist þó. Ég var nú einu sinni starfsmaður hjá embætti sem var lagt niður og það er kannski mér til hróss að ég lagði það til að Lögregluskóli ríkisins yrði lagður niður og lagði þar af leiðandi sjálfan mig niður þannig að ég er nú alls ekki hlutdrægur í þessu máli.

En ég tel að við ættum að vinna frekar að því að sameina stofnanir og sérstaklega hef ég horft til eins hlutar í því markmiði, stjórnsýslu ríkisins úti á landi. Það hefur ávallt farið í taugarnar á mér hvað hún er óskipulögð. Til eru alls kyns stofnanir sem hafa yfirleitt aðalstöðvar í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið t.d., og þetta er endalaus röð af einhverjum stofnunum sem ná yfir allt landið. Þær þurfa að rækja erindi úti á landi, svara einhverju og athuga eitthvað og þá senda þær oft erindreka úti á land. Ég sá það oft þegar ég var í Vestmannaeyjum, þar sá maður kannski á einum degi þrjár, fjórar bifreiðar sem voru merktar stofnunum sem hafa aðsetur í Reykjavík. Yfirleitt voru þær að rúnta til að rækja kannski eitthvert smávegis erindi. Það er auðvitað sóun. Ég taldi á þeim tíma að sýslumannsembættin, sem voru þá reyndar lögreglustjóraembætti líka, ættu náttúrlega taka þetta til sín, rækja þessi erindi á meðan þau væru ekki á þeim mun faglegri grunni, þ.e. að það þyrfti sérþekkingu til að rækja þau, sem er kannski í fæstum tilvikum. Þarna má spara stórfé þannig að ég er afskaplega ánægður með þessa tillögu.

Ég hef nú margt að segja í viðbót. Ég sé að tíminn er búinn. Ég ætlaði að tala um byggingar, hver væri þörfin á þeim í dag. Kannski kem ég aftur hingað upp ef ég fæ tækifæri til þess, til að ræða um byggingar. Ég held að menn þurfi að horfa svolítið öðruvísi á þær en hingað til og síðan ætla ég einnig tala um stjórnvöld og ráðherra. Ég læt það bíða ef ég kemst aftur að.