151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[11:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmönnum Miðflokksins fyrir að leggja fram þessa frábæru þingsályktunartillögu. Ég vil nefnilega alltaf tala fyrir einföldun regluverksins og það skiptir mjög miklu máli. Það skiptir máli fyrir atvinnulífið að það geti gengið að einföldum og skýrum reglum og einföldu og skýru starfsumhverfi. Það er hlutverk okkar hér inni að tryggja að svo sé og ég tek undir það. Við Sjálfstæðismenn höfum gert mikið af því að ferðast um landið, áður en kórónuveiran fóru að stríða okkur, og það sem fólk segir við okkur þar, sérstaklega atvinnurekendur minni fyrirtækja, er svolítið: Hættið að þvælast fyrir okkur, látið okkur vera og þá björgum við þessu sjálf. Það eru auðvitað risastór skilaboð og við þurfum að taka þau til okkar.

Það er reyndar líka mjög áberandi þegar maður talar við fyrirtæki, kannski sérstaklega þau sem eru í stærri kantinum, hversu mikilvægur EES-samningurinn er fyrir þessi fyrirtæki og hversu mikla áherslu þau setja á það að við innleiðum það regluverk, sérstaklega fyrirtæki sem standa í útflutningi. Þau vilja vera á sama stað og þessi risastóri markaður sem EES-markaðurinn er.

En ég verð líka að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst svolítið innantómur bragur á því þegar hv. þingmenn Miðflokksins koma hér upp og tala um einföldun regluverksins og koma með stolnar fjaðrir eins og „báknið burt“. Þegar kemur að því að ræða þau mál í þingsal sem raunverulega snúa að því, til að mynda að sameina stofnanir eða einfalda regluverk, þá er sagt: Abbababb, nei, þetta gengur ekki alveg upp. Ég er ekki búin að gera ítarlega greiningu á því hvaða mál þetta eru, en svona í fljótu bragði man ég eftir til að mynda samkeppnislögunum og frumvarpi um breytingar varðandi leigubílaakstur þar sem verið er að tala um að færa fyrirkomulagið í sama horf og víða gerist í Evrópu og einfalda einmitt regluverkið utan um það. En nei, nei. Það voru lög sem snertu endursölu notaðra bíla. Þar höfðu þingmenn Miðflokksins eða þingmaður alla vega mjög sterkar skoðanir á því að það ætti ekki að gera. Ég minnist þess líka að þegar verið var að ræða í þessum sal að sameina tollinn og ríkisskattstjóra í embætti Skattsins, þá risu hér einhverjir upp og sögðu: Nei, þetta er ekki alveg nógu gott. Matvælasjóður, þegar var verið að sameina þar tvo sjóði. Nei, nei, það var ekki nógu gott.

Þannig að ég veit ekki, mér finnst þetta að einhverju leyti innantómt. Ég myndi gjarnan vilja sjá hv. þingmenn Miðflokksins með okkur hinum í liði þegar kemur að slíkum málum. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom einmitt inn á að það væri von á nokkrum frumvörpum, í það minnsta samkvæmt þingmálaskrá ráðherra á þessum vetri, og ég vona svo sannarlega að við getum öll verið saman í liði þegar kemur að því að raunverulega einfalda regluverkið.

Þessa þingsályktunartillögu get ég vel stutt, þ.e. að gera tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Það er reyndar tekið fram í tillögunni að það eigi að miða við ákveðna stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur gerði. Það er að sjálfsögðu frá þeim tíma sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sat í forsætisráðuneytinu og stýrði þeirri vinnu eða hafði með einhverjum hætti veg og vanda af því og það er kannski gott eitt. En aðalmálið er að við eigum að tryggja það í einu og öllu að það umhverfi sem við búum bæði fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi sé í fyrsta lagi mjög skýrt og sem einfaldast. Hér eigum við að búa til gott umhverfi fyrir fólk, frumkvöðla og fyrirtæki til að nýta sína hæfileika, þroska og gera úr þeim verðmæti sem gagnast okkur öllum.