151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[11:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við glímum hér við kerfi Sjálfstæðisflokksins þegar allt kemur til alls. Núverandi kerfi er afleiðing stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum, nær óslitið. Við Píratar höfum lagt fram ýmis reglugerðareinföldunarmál eins og t.d. um sjálfstæði kirkjunnar. Þar eru Sjálfstæðismenn að reyna að klóra í bakkann og eru með eitthvert áratugaplan sem ekki sér fyrir endann á. Það eru einhverjar breytingar á regluverki kirkjunnar sem nýbúið er að gera, en samt er verið að festa núverandi fyrirkomulag til alla vega 15 ára, sem gengur gegn lögum um opinber fjármál, og ýmislegt fleira skemmtilegt. Við erum búin að þola kennitöluflakk í, ég veit ekki hvað langan tíma, og svo kemur fjármálaráðherra, sem hefur alveg haft það í hendi sér að breyta því á undanförnum allt of mörgum árum sem hann hefur setið í fjármálaráðuneytinu, og slær sér á brjóst og segir að það þurfi að vera einhverjar refsingar og hafa einhverjar afleiðingar að koma svona fram. En samt gerist einhvern veginn ekki neitt.

Ég tek þessari þingsályktunartillögu fagnandi og segi bara: Meira svona. Ég hlakka til þess þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer að huga aðeins betur að einföldun regluverks fyrir fólk almennt en ekki einföldun regluverks þannig að sumir fyrirtækjaeigendur geti haldið áfram kennitöluflakki.