151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tímasett aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

24. mál
[12:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við meginmarkmið þessarar þingsályktunartillögu. Það er mikilvægt að við förum sem samfélag að einfalda regluverk og oft hefur verið talað um það áður. Ég ætla ekki endilega að gagnrýna að það hafi verið gert, heldur miklu frekar að of lítið hafi verið um það að ríkisstjórnin hafi fylgt annars göfugu markmiði, að einfalda regluverk. Það skiptir máli að íslensk fyrirtæki, lítil og meðalstór, séu samkeppnishæf og noti tímann í það sem þau gera best, sinni hlutverkinu sem felst í starfsemi fyrirtækisins frekar en að sinna kerfinu sem slíku og leggja mikinn tíma í það.

Er ég að kalla eftir eftirlitslausu umhverfi? Að sjálfsögðu ekki. Þessi tillaga gengur að mínu mati ágætlega upp og ég lýsi yfir stuðningi við meginmarkmiðin, eins og ég sagði. Ég ætla þó rétt að vona að Miðflokkurinn ætli ekki, í greinargerð með tillögunni, að fara að kenna Evrópska efnahagssvæðinu, EES-samningnum, um hið flókna regluverk sem að mínu mati er að meginhluta til heimatilbúið. Oftar en ekki höfum við séð ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og vinstri stjórnina á sínum tíma, ganga lengra en tilskipanir Evrópusambandsins hafa kveðið á um. Ef menn ætla að halda því fram í þessari tillögu að það sé að hluta til þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu að kenna, þá vil ég mótmæla því.

Ég undirstrika: Ég er sammála því að við eigum að setja fram tímasetta — ég myndi frekar segja tímasetta og agressífa — aðgerðaáætlun um einföldun regluverks en ég vil miklu frekar draga það fram að regluverkið, sem við höfum fengið í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, hefur miklu frekar stuðlað að auknu gegnsæi og stutt við litla manninn miklu frekar en þann stóra. Við sjáum það með kröfum um aukið gegnsæi og skýrari og skarpari samkeppnisreglum sem við hefðum ekki fengið ef við hefðum ekki verið undir einmitt þessum hatti. Þannig að neytendur og ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki hafa að mínu mati notið góðs af því að við erum í EES. Ég segi ekki að það sé allt gallalaust, síður en svo, en ég vil draga fram að mér finnst það draga svolítið úr bitinu í þessu að Miðflokkurinn fari aukakrók til að geta bent á Evrópusambandið og það mikilvæga alþjóðasamstarf sem við tökum þátt í í gegnum EES-samninginn. Tillagan sjálf stendur nefnilega svo ágætlega fyrir sínu og ég vil lýsa yfir stuðningi við hana. Það verður fróðlegt að sjá hver framvindan verður í meðförum nefndarinnar og ég vona að við fáum tækifæri til að ræða þetta mál enn frekar.

Ég ætla ekki að fara í umkenningarleik um það hvaða flokkar eigi mesta sök á því að við erum með flókið kerfi og ekkert allt of aðgengilegt. En þetta er tillaga þar sem reynt er að ráða bót á því og þess vegna vil ég gjarnan fá frekari tækifæri til að ræða hana í þingsal síðar.