151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

25. mál
[12:21]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (hækkun lífeyris). Flutningsmenn eru allir þingmenn Samfylkingarinnar. Í 1. gr. leggjum við til að ákvæði komi til bráðabirgða í lögin og bætist við nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 63. gr. og fjárhæðir samkvæmt 22. gr., hækka í samræmi við hækkanir lágmarkstekjutryggingar samkvæmt lífskjarasamningi 2019–2022. Hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris (grunnlífeyris) og ellilífeyris skal vera afturvirk frá 1. apríl 2019 í samræmi við hækkun lágmarkstekjutryggingar samkvæmt samningnum.

Og 2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frumvarp í svipuðum dúr var flutt á 145. og 149. og 150. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Málið er nú lagt aftur fram með breytingum sem taka mið af svokölluðum lífskjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 3. apríl 2019, og samsvarandi breytingum á röksemdum í greinargerð.

Með þessu frumvarpi er lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lægstu launataxta í samræmi við gerða kjarasamninga og verði 368.000 kr. árið 2022. Greiðslurnar fari stighækkandi fram til 2022 með hliðstæðum hætti og lægstu laun samkvæmt sömu kjarasamningum.

Við framlagningu frumvarpsins í fyrra nefndi ég að stjórnarliðar tækju býsna stórt upp í sig þegar þeir notuðu stór orð eins og lífskjarasamning þegar ekki væri tryggt að lífskjörin næðu til allrar þjóðarinnar. Nú lítur ekki beinlínis út fyrir að ríkisstjórnin ætli að rétta hlut þeirra sem allra lægstu kjörin hafa eða tryggja þeim sómasamleg lífskjör. Það má ekki gleyma því í þessari umræðu að þessi hópur hefur setið eftir jafnt í uppsveiflu sem niðursveiflu í hagkerfinu. Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leyft lífskjarabilinu á milli þeirra sem þreyja þorrann á lágmarkslífeyri og almenns launafólks að aukast. Þar með hefur verið tekin sjálfstæð ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu og jafnvel að festa fólk í fátæktargildru.

Í síðasta fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar er fátækasta fólkið í landinu enn einu sinni skilið eftir, þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafði reyndar sagt nokkrum dögum fyrir síðustu kosningar að þetta fólk ætti ekki að þurfa að bíða eftir réttlætinu. Hækkun lífeyris almannatrygginga í samræmi við hækkun lægstu launa er einfaldlega mikið prinsippmál. Nú er svo komið að tugum þúsunda króna munar á lágmarkslaunum og örorku og ellilífeyri. Um næstu áramót, þegar hækkanir fyrirliggjandi frumvarps til fjárlaga koma til framkvæmda, verður munurinn heilar 86.000 kr. Samfylkingin telur að óskertur lífeyrir almannatrygginga eigi aldrei að vera lægri en lágmarkslaun. Lágmarkslaun eru viðmið um mannsæmandi framfærslu og það hlýtur að eiga við um öryrkja og eldri borgara líka. Um það er raunar kveðið á í gildandi lögum. Auk þess er það líka sjálfstætt verkefni að draga verulega úr tekjutengingum lífeyrisgreiðslna almannatrygginga, en ekkert þessu líkt er fyrirhugað hjá ríkisstjórninni.

Markmið frumvarpsins er einfaldlega að hækkun almannatrygginga feli það í sér að aldraðir og öryrkjar fái mannsæmandi framfærslu og laun. Þetta eru vissulega mjög ólíkir hópar og ólíkt fólk innbyrðis. En öryrkjar eru kannski sá hópur sem verst stendur þegar þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Tæpur fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum. Frá árinu 1998 hefur kjaragliðnun öryrkja numið 59,4%, samkvæmt tölum sem unnar hafa verið fyrir málefnahópa Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál. Margir eldri borgarar búa vissulega við nokkuð góð kjör, en þó er stór hluti hópsins sem hefur takmörkuð eða jafnvel engin réttindi úr lífeyrissjóði. Þar eru t.d. konur sem voru heimavinnandi bróðurpartinn af lífinu mest áberandi.

Þau sem þannig háttar um og reiða sig nær eingöngu á ellilífeyri almannatrygginga og greiðslur honum tengdar sér til framfærslu, er hópur aldraðra og öryrkja sem neyðist jafnvel til að neita sér um læknisþjónustu eða eðlilega hluti eins og að gefa barnabörnunum jólagjafir eða fara í leikhús einu sinni á ári eða taka með öðrum hætti þátt í því í lífinu sem gefur því eitthvert gildi. Það er því algjör frumskylda að Alþingi mæti þessum hópi og samþykki þetta frumvarp. Það er sérstaklega nauðsynlegt vegna þess að þetta er hópur sem helst sat eftir í uppgangi síðustu ára, horfir nú fram á þessa áðurnefndu kjaragliðnun og þarf að lifa við það, miðað við fram komin fjárlög og fjármálaáætlun, að dragast enn lengra aftur úr. Þetta verður ekki til neins annars en að auka enn á bilið milli fátækra og ríkra, auka ójöfnuð, sem ætti að vera okkur sérstakt umhugsunarefni nú á þessum krepputímum, þar sem það er mjög vel þekkt afleiðing kreppu að ójöfnuður aukist. Við sjáum t.d. á heimsvísu að í fyrsta skipti í meira en áratug hefur fátækt í heiminum, sem hefur sem betur fer farið ört minnkandi síðustu ár og áratugi, verið að aukast aftur.

Herra forseti. Samkvæmt kjarasamningum voru lágmarkslaun lífskjarasamningsins hækkuð í 317.000 kr. á mánuði 1. apríl 2019 og eiga að hækka um 51.000 kr. til viðbótar til ársins 2022. Boðuð hækkun lífeyris almannatrygginga í fjármálaáætluninni er langt frá því að ná fyrrgreindum markmiðum. Framfærsluviðmiðið, án heimilisuppbótar þeirra sem fá örorku og endurhæfingarlífeyri, er 255.834 kr. á mánuði. Það er ljóst að margir þurfa að lifa á strípuðum bótum.

Við leggjum því til að upphæðin þróist með eftirfarandi hætti: Að upphæðin verði tafarlaust afturvirk, 317.000 kr. á mánuði. Frá 1. apríl 2020 verði hún 335.000 kr., 1. janúar 2021 351.000 kr. á mánuði og 1. janúar 2022 nái hún 368.000 kr. á mánuði.

Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til er líka alveg ljóst að draga þarf að úr vægi tekjuskerðinga vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri, sem stundum er kölluð í þessum sal króna á móti krónu skerðing, en um hana er kveðið í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Gert er ráð fyrir að breytingar á fjárhæðum til samræmis við frumvarpið verði birtar í reglugerðum. Enn og aftur vantar fjármagn í fjárlögum til að ráðast í afnám þessara skerðinga.

Í ábyrgu leiðinni sem Samfylkingin hefur lagt fram sem efnahagsáætlun fyrir árið 2021 leggjum við til að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna strax árið 2021 og í kjölfarið verði dregið frekar úr skerðingum í öllu almannatryggingakerfinu.

Það eru til fordæmi um að þessum hópum séu ákvarðaðar kjarabætur í tengslum við samninga, eins og hér er lagt til. Það var t.d. gert árið 2011 þegar Alþingi þess tíma hækkaði greiðslu til hópanna í samræmi við kjarasamninga þá. Ef einhver vill vísa til þess að nú sé vinna í gangi til að ná saman við þá hópa bendi ég á að reynslan sýnir að það mun ganga allt of hægt. Þetta fólk hefur einfaldlega ekki efni á að bíða og á ekki að þurfa að bíða, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það svo vel haustið 2017. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað mikið um þessi mál og við hljótum að búast við því að hún láti efndir fylgja orðum sínum. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að það verði auðsótt mál að fá meiri hluta þingheims á málið og tryggja að þessir hópar, sem svo sannarlega eru illa staddir, a.m.k. margir einstaklingar innan hans, fái sömu hækkanir og verið er að veita þeim sem eru á lægstu launatöxtunum í samfélaginu.

Herra forseti. Að lokum er býsna áhrifarík en um leið sláandi auglýsing Öryrkjabandalags Íslands þar sem fylgst er með myndarlegum manni við kökubakstur og sýnt hvernig staða öryrkja er gagnvart lægstu samningsbundnum launum. Við gerð auglýsingarinnar er vissulega leitað í smiðju formanns Sjálfstæðisflokksins, þess flokks sem enn trúir því að brauðmolakenningin lifi og að hún virki með þeim hætti að það þurfi einungis að stækka kökuna til að nægjanlega margir og feitir brauðmolar falli á borð hinna lakar settu. Fjölmargar alþjóðlegar rannsóknir sýna reyndar að þessi kenning er ekkert nema hugarburður. Þau sem lifa á strípuðum bótum og á almannatryggingakerfinu þurfa engar slíkar rannsóknir. Þau finna villuna í þessum kenningum á eigin skinni. Við eigum nefnilega öll hlutdeild í sameiginlegum gæðum landsins og sameiginlegum auðlindum. Við eigum ekki að sætta okkur við að eldra fólk sem fæðist til fötlunar alla ævi muni aldrei geta alið önn fyrir sér og þurfi að vera á slíkum bótum og vera dæmt til fátæktar allt lífið. Það er eiginlega ekki hægt að sættast á að það sé reglan sem við byggjum á. Þess vegna vonast ég til þess að þetta mál fái efnislega umfjöllun en verði ekki bara ýtt til hliðar og svæft í nefnd, eins og raunin hefur verið allt of oft. Ég bind því miklar vonir við að velferðarnefnd, sem taka mun við málinu að þessari umræðu lokinni, sýni nú þann dug og vilja að við búum í samfélagi þar sem ríkir lágmarksréttlæti.