151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

25. mál
[13:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp Samfylkingarinnar um breytingu á lögum um almannatryggingar og hækkun lífeyris. Ég er kominn hingað upp til að styðja þetta mál heils hugar eins og ég hef gert með öll góð mál sem varða almannatryggingar og meðferð á bótafjárhæðum, sérstaklega til þeirra sem verst hafa það. Þó að maður styðji að fullu markmiðin í frumvarpinu um að hækka bætur almannatrygginga í samræmi við lífskjarasamninga þá ná þær hækkanir því miður ekki nema bara hluta af því sem hefur verið tekið af almannatryggingasjóðum undanfarna áratugi. Það sem er kannski merkilegast við þetta er að þessi hækkun sem kemur þarna strax, úr 255.834 kr. í 317.000 kr., um 70.000 kr., er eiginlega nákvæmlega sú tala sem við þingmenn fengum í launahækkun síðast. Þar af leiðandi er mjög eðlilegt að almannatryggingar fengju þessa hækkun og bótaþegar hafa virkilega þörf fyrir hana vegna þess að hún myndi skipta gífurlegu máli, þessar rúmlega 40.000 kr. eftir skatta.

Það sem stendur upp úr og við erum búin að fá nasaþefinn af núna er að Ríkisendurskoðun tók Tryggingastofnun ríkisins til skoðunar. Það er hluti vandans en aðalvandinn liggur í þessu almannatryggingakerfi sem hefur verið byggt upp undanfarinn áratug af fjórflokknum. Hann hefur búið til bútasaumað skrímsli sem er fáránlega uppbyggt en ég er farinn að trúa því að það hafi verið byggt upp með vilja, algjörum vilja, um það hvernig á að búa til kerfi þar sem settar eru inn 3, 4, 5 kr. en teknar til baka 6, 7 eða 8 kr. í mörgum tilfellum. Þetta hefur þeim tekist með því að búa til ekki bara skerðingar í kerfinu heldur keðjuverkandi skerðingar og ekki bara innan almannatryggingakerfisins heldur út fyrir það, inn í félagsleg kerfi sveitarfélaganna. Þess vegna er það eiginlega með ólíkindum ef maður horfir upp á þessa tölu, 70.000 kr. hækkun á einu bretti til almannatryggingaþega, öryrkja og eldri borgara sem verst hafa það, að áhrifin sem hún hefur inn í kerfið eru þau að hún myndi byrja strax að skerða. Það er það merkilegasta við það. Og hvað færi það strax að skerða? Jú, húsaleigubætur, barnabætur og fleira og fleira. Og hvaða afleiðingar hefur það? Jú, þeir sem langmest þurfa á þessari hækkun að halda yrðu fyrir mestu skerðingunum.

Hvers lags innræti, virðulegur forseti, þurfum við að hafa í þessum sal, áratug eftir áratug, til að búa til svona skrímsli, svona ómannúðlegt kerfi? Hugmyndaflugið sem hefur verið notað til að byggja upp þetta kerfi er eiginlega með ólíkindum. Við sjáum bara vandræðaganginn í þessari ríkisstjórn, þessari þriggja flokka ríkisstjórn. Þeir eru allir hluti af fjórflokkakerfinu gamla sem byggði upp kerfið. Ef maður spyr stjórnarliða þeirrar einföldu spurningar hvernig í ósköpunum sé hægt að reikna út að 1. janúar á næsta ári eigi bætur almannatrygginga að hækka um 3,5% þá eru svörin þrjú, jafn mörg og flokkarnir. Framsókn sagði að þetta væri bara hækkun á vísitölu neysluverðs. Sjálfstæðisflokkurinn nefndi vísitölu neysluverðs og launaþróun, og launaskrið dregið frá. En í hvaða hlutföllum? Það veit enginn nema hæstv. fjármálaráðherra. Síðan kom þriðja svarið og það var launaþróun samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. En það merkilegasta í því frumvarpi var að launaþróun verður á næsta ári 5,2%, þannig að þá hlýtur launaskrið upp á 1,7% að vera dregið þar frá. Hvernig í ósköpunum ætlar einhver að vita að launaskrið verði 1,7%, launaþróunin 5,2% eða að verðbólgan verði 3,5%? Seðlabankinn á að reikna út verðbólgu. Það er merkilegt að það eiga líka eldri borgarar og öryrkjar að gera fram í tímann. Það væri auðvitað mun betra ef við tækjum upp það kerfi, sem er að mörgu leyti verið að boða hér, að kjarasamningar þeirra lægst launuðu myndu bara gilda gjörsamlega um almannatryggingakerfið, að þeir myndu sjá til þess að þegar þeir sem eru á lægstu launum fá 24.000 kr. hækkun fái þeir í almannatryggingakerfinu líka 24.000 kr. Það yrði þá gagnsætt kerfi. Það yrði reiknað út fyrir fram, það kæmi þá strax inn. Þá þarf enginn að vera að reyna að spá í framtíðina og þá gæti bæði forsætisráðuneyti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sleppt því að fá sér spákonu til að spá fyrir um verðbólgu næsta árs, launaþróun næsta árs eða launaskrið næsta árs.

Annað í þessu hefur gleymst. Það virðist hafa verið ákveðin samstaða um að auka stórlega skattheimtu á þá einstaklinga sem eru í almannatryggingakerfinu og líka þá sem eru á lægstu launum. Hvernig er það gert? Jú, það er með því að láta persónuafsláttinn vera óbreyttan eða bara hreinlega ekki, stundum er hann hækkaður samkvæmt neysluvísitölu, stundum er hann ekki hækkaður neitt. Nýjasta útspilið var að núverandi ríkisstjórnarflokkar ætluðu að lækka skattprósentuna tvisvar. Þá mega þeir nú líka lækka persónuafsláttinn í staðinn fyrir, sem hefði verið mun nær og mun skilvirkara, að skerða persónuafsláttinn þannig að hann yrði horfinn við t.d. 900.000 kr. eða 1 milljón kr. í tekjur og láta hann óskertan og hækka samkvæmt launaþróun eða vísitölu neysluverðs frá 2008 til dagsins í dag og það myndi gilda fyrir þá sem eru á lægstu launum og bótum almannatrygginga. En eins og ég segi, Öryrkjabandalagið hefur bent á að næsta ári, þegar þessi furðulega 3,5% hækkun kemur til framkvæmda en á sama tíma seinna á árinu munu laun samkvæmt lífskjarasamningunum hækka um 24.000 kr., verður orðinn 86.000 kr. munur á lægstu launum og bótum.

Því miður er þetta kerfi meingallað og því meira sem við erum að reyna að hækka bætur og því meira sem við erum að reyna að bæta kerfið, því meira skrímsli verður það. Þar af leiðandi ættum við að einbeita okkur að því að endurskoða kerfið í heild sinni, einfalda það eins og hægt er. En á sama tíma styð ég það að allar þær kauphækkanir sem eru í lífskjarasamningunum fari til almannatryggingaþega líka en með þeim skilyrðum að ef við ætlum að hækka almannatryggingar samkvæmt þessum lífskjarasamningum, þá skili það sér nákvæmlega til þeirra en við notum ekki þessar brellur sem hafa verið búnar til til þess að skerða annars staðar í kerfinu eða hvað þá að skerða það keðjuverkandi út fyrir kerfið sem er ömurlegt og okkur til háborinnar skammar að við skulum vera með svoleiðis kerfi.