151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[13:42]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu. Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna að mótun sjálfbærrar iðnaðar- og atvinnustefnu með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og í helstu viðskiptalöndum. Stefnan verði unnin í víðtæku samstarfi við aðila í atvinnulífi og iðnaði, talsmenn umhverfisverndar og framtíðarnefnd forsætisráðherra. Við gerð stefnunnar verði sérstaklega litið til þess hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar. Ráðherra kynni nýja stefnu fyrir maí 2021.

Með þessari tillögu er lagt til að Alþingi komi á einhvers konar nefnd sem vinni að opinberri iðnaðarstefnu. Þetta er tillaga sem hefur komið fram nokkrum sinnum áður. Síðast lagði ég hana fram á 149. löggjafarþingi en hún náði ekki fram að ganga. Hún hefur verið lítillega uppfærð síðan þá. Sambærileg tillaga til þingsályktunar um endurskoðun iðnaðarstefnu var lögð fram á 115. löggjafarþingi af Stefáni Guðmundssyni. Í rauninni á sú hugmynd enn við og að mati flutningsmanna á upprunaleg greinargerð tillögunnar enn að mestu leyti við þrátt fyrir að 29 ár séu liðin frá framlagningu hennar. Við leyfðum henni því að fylgja óbreyttri í lok þessarar greinargerðar.

Almennt séð er Ísland ekki með eiginlega iðnaðarstefnu í dag heldur með margar ólíkar stefnur sem snúa að vissum þáttum atvinnumála án þess að nokkur heildstæð stefna endurspegli heildarmyndina. Til að mynda hefur gildandi byggðastefna ákveðna eiginleika iðnaðarstefnu í bland við velferðarstefnu og stefnu um byggðafestu. Þá hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipað stýrihóp um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu. Hópurinn bjó til stefnu sem heitir Nýsköpunarlandið Ísland og var kynnt 4. október 2019. Að öðru leyti en þessu er formlega birtingarmynd stefnu ríkisstjórnarinnar hverju sinni kannski helst að finna í gildandi fjármálaáætlun, í formi aðgerða á málefnasviðum sem snúa að atvinnuvegum landsins. Því má segja að Ísland skorti iðnaðarstefnu sem fjallar á breiðan hátt um hvaða atvinnuvegi landsins eigi að styðja við og á hvaða hátt, einkum þá sem snúa að útflutningi.

Að mati flutningsmanna er hugtakið iðnaðarstefna að ýmsu leyti gallað því að það býr til hugrenningatengsl við mengandi stóriðju. Það er samt viðeigandi hérna því að það fjallar um þá iðn sem íbúar landsins fást við í stórum dráttum og hvernig samhengi hennar skuli vera við markmið ríkisins um þróun hagkerfisins og hagsældar fyrir almenning. Þetta hugtak er notað úti um allan heim í þessum skilningi. Það er betra að halda sig við það hugtak en að fara út í að reyna að búa til eitthvert annars konar orðskrípi.

Síðast var lagður grundvöllur fyrir iðnaðarstefnu á Íslandi með þingsályktun um iðnaðarstefnu árið 1979. Eftirfylgni með þeirri vinnu hefur ekki verið áberandi hin síðari ár enda hefur iðnþróun undanfarna áratugi fyrst og fremst litast af óbilandi trú stjórnvalda á áframhaldandi vænleika hvalrekahagkerfisins sem bar til Íslands stórútgerðir, áliðnað, bankabransa, makríl og, nú nýlega, ferðamannastraum. Í rauninni verður slíkri handahófskenndri nálgun seint líkt við hagstjórn. Nauðsynlegt er að í iðnaðarstefnu sé hugsað til langs tíma og að í henni séu sett fram skýr framtíðarsýn. Hún má ekki standa í tómarúmi. Iðnaðarstefnan þarf einmitt að varða leiðina með mælanlegum viðmiðum ef einhver von á að vera til þess að uppfylla framtíðarsýn stefnunnar.

Flutningsmenn vilja einnig benda á mikilvægi þess að iðnaðarstefna sé ekki einungis lögð fram með tilliti til efnahags þjóðarinnar heldur taki líka mið af líffræðilegum fjölbreytileika Íslands og hamfarahlýnun jarðar. Það er svo sem hægt að fara aðeins dýpra ofan í þetta og það er gert í greinargerðinni, bæði með upprunalegri greinargerð þingsályktunartillögunnar sem var lögð fram af þingmanni Framsóknarflokksins árið 1991, ef mig misminnir ekki, og þar sem farið er í umfjöllun Mariönu Mazzucato hagfræðings í bók sinni og Kevins Carsons í greinum og fleira og fleira.

Stóra atriðið í því hvernig við byggjum upp atvinnuvegi landsins, hvernig við byggjum upp hagkerfi landsins, er að við þurfum að taka mið af því að einhvers konar heildstæð hugmynd sé í gangi. Með því að nálgast þetta alltaf í púsluspili er hætt við því að við missum af alls konar tækifærum og séum ekki nógu einbeitt í því að ná tilteknum árangri. Það sem þessi tillaga gengur í raun út á er að búin verði til heildstæð samfella. Ekki er verið að segja að ryðja eigi út af borðinu allri þeirri góðu vinnu sem hefur verið unnin fram að þessu heldur er þvert á móti reynt að líma þetta saman með skýrari hætti. Afleiðingin er auðvitað sú að í staðinn fyrir að við breytum reglum og lögum um hvernig rekstri fyrirtækja er háttað, skattareglum o.s.frv. eftir því sem hendi er næst hverju sinni, verður alltaf til einhvers konar sameiginlegt líkan þjóðarinnar til að bera saman hvaða áhrif tilteknar hugmyndir gætu haft á heildarmyndina. Þessi hugmyndafræði hefur verið vaxandi í flestum nágrannalöndum okkar undanfarin ár og hefur í rauninni gefist mjög vel í mörgum löndum. Í greinargerðinni er m.a. talað hvernig þetta hefur verið gert í Evrópusambandinu og vísað er til héraðsins Emilia-Romagna á Ítalíu. En þegar ég hugsa um þetta horfi ég mjög oft til Japans, Suður-Kóreu og Taívans. Það eru allt lönd sem hafa náð rosalega miklum árangri á þessu sviði með því að hafa mjög einbeitta sýn á hvernig skuli mæla árangur og hvernig skuli verðlauna árangur í þróun, t.d. í útflutningi og álíka.

Í tillögunni er ekki sagt sérstaklega til um hverjir mælikvarðarnir eigi nákvæmlega að vera. Það er eitthvað sem er eðlilegt að komi út úr þessari vinnu. Það er heldur ekki sagt að endilega eigi að hugsa hlutina á einhvern tiltekinn hátt. Það er hægt að nálgast þetta á marga vegu en með því að horfa til framleiðni í hagkerfinu, sjálfbærni í samfélaginu og gagnvart náttúrunni og til allra annarra þátta sem eru á döfinni í dag er mögulegt að fá góða niðurstöðu.

Ég held líka að þessi tillaga sé einkar mikilvæg í augnablikinu vegna þess að við horfum upp á sögulegan samdrátt í hagkerfinu og á næstu mánuðum og árum munum við þurfa að endurbyggja hagkerfið okkar að einhverju leyti. Hvernig við gerum það nákvæmlega er auðvitað spurning. Við gætum alveg reynt það sem við höfum margsinnis reynt áður, að leyfa þessu bara að reddast einhvern veginn, eða við gætum reynt að skipuleggja okkur vel núna og unnið markvisst að því að hafa einhvers konar áætlun fyrir framan okkur þannig að þegar við komum út úr þessum heimsfaraldri séum við betur í stakk búin til að geta nýtt þau tækifæri sem koma upp. Þess vegna er einmitt ágætt að reyna að móta þessa stefnu fyrir maí 2021. Það kann að vera að of bjartsýnt sé að ætla að hægt sé að vinna þetta hratt en ég held að það sé alla vega á það reynandi. Ég ætla því ekki að hafa fleiri orð um það eins og er.

Ég legg síðan til að þetta mál verði bara samþykkt sem fyrst og fái góða afgreiðslu. Þessa vinnu vantar og hefur vantað í alla vega þau 29 ár sem hugmyndin hefur verið á borðinu.