151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[13:53]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að vera vakandi og grafa upp þetta aldna framsóknarmál vegna þess að þetta er sérstaklega gott mál. Það eru kannski svona mál sem gera pólitíkina skemmtilega. Þarna eru tækifæri til þróunar og framfara. Ef maður horfir á meðflutningsmenn málsins, sem eru annars vegar úr þingflokki Pírata og hins vegar þingflokki Framsóknarflokksins, sem sumir hverjir telja að séu mögulega á andstæðum pólum pólitískt séð, þá sýna svona mál að svo er ekki. Um er að ræða fólk sem hefur áhuga á að láta til sín taka og stuðla að framförum í þessu landi, ekki síst nú, eins og hv. þm. Smári McCarthy nefndi, þegar við erum að sigla inn í sögulegan efnahagslegan samdrátt. Því ber okkur að leita allra leiða til þess að koma verkefnum áfram sem stuðla að nýsköpun og aukinni verðmætasköpun og framleiðni í landinu. Öðruvísi komumst við ekki upp á við. Öðruvísi getum við ekki staðið jafnfætis nágrönnum okkar og verið samkeppnisfær.

Það kemur einmitt fram hérna í greinargerðinni, sem er afar vel unnin og fróðleg og ég hvet fólk til að lesa hana sér til skemmtunar, og þingmaðurinn fór líka ágætlega yfir það í ræðu áðan, að við stöndum nú á krossgötum. Ekki bara vegna ástandsins nú heldur sjá það allir að þau kerfi sem við höfum byggt upp eru að mörgu leyti góð og hafa reynst okkur vel en annað þarf kannski að bæta og endurhugsa í samræmi við breyttar aðstæður og þróun annarra hluta. Við erum t.d. aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og stórt viðskiptaland okkar, Bretland, er gengið úr Evrópusambandinu og það breytir stöðu okkar útflutnings verulega.

Í greinargerðinni er einnig komið inn á loftslagsmálin. Sú umræða var t.d. bara ekki til staðar, ég vona að ég fari rétt með, á árinu 1991, alla vega ekki í þeim mæli sem hún er nú. Hún var vissulega byrjuð en staðan er önnur nú varðandi loftslagsmálin. Sjálfbærnihugtakið er alla vega tiltölulega nýlegt. Þannig að ég held að við þurfum að hugsa hlutina alveg upp á nýtt út frá nýrri tækni, stöðu í alþjóðlegu alþjóðasamfélagi, efnahagslegri stöðu okkar o.s.frv.

Mér fannst áhugavert að heyra þingmanninn nefna hér ríki sem hafa náð sér á undraverðan hátt upp úr mjög erfiðri efnahagslegri stöðu og hafa orðið, hvað skal segja, svona ákveðin fyrirbæri og til fyrirmyndar hvað varðar upprisu og árangur í efnahagslegu tilliti. Það eru ríki eins og Japan, Suður-Kórea og Taívan. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi hér í lokin að hann ætlaði ekki að hafa skoðun á því hvers lags mælikvarðar yrðu settir fram við mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu fyrir Ísland, en maður veltir því fyrir sér að þau ríki sem þingmaðurinn nefndi hafa eflaust unnið sína heimavinnu vel miðað við árangurinn sem þau hafa sýnt. Það mætti halda að þau hefðu mótað mögulega slíka mælikvarða og ég tel einsýnt að við horfum þangað til að forma ákveðinn ramma um okkar eigin iðnaðarstefnu. Þó svo að við lítum oft fyrst og fremst til Norðurlandanna þegar við erum að móta stefnur og jafnvel heilu lagabálkana og kannski Vestur-Evrópu, þá eigum við góða vini austur frá. Og svo ég taki nú dæmi um Japan er margt líkt með Japan og Íslandi. Það má kannski segja að við erum eyjafólk, búum við náttúruvá. Japanir hafa einangrast og barist við hungursneyðir og hafa átt erfiða tíma oft á tíðum en hafa alltaf risið upp og þar hefur hugvitið fleytt þeim ansi langt og aginn. Ég held að við Íslendingar höfum mikið af hugviti en kannski stundum minna af aga. En við hljótum að geta bætt okkur verulega þar. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi áðan að við hefðum hingað til farið svolítið áfram á ekki bara hugviti og krafti og orku sem er nú nær hjá okkur Íslendingum heldur kannski einnig á mátulegu kæruleysi í og með, „þetta reddast“-viðhorfið. En að mínu mati þá getum við ekki og eigum ekki að treysta áfram á það. Við verðum að móta sjálfbæra iðnaðarstefnu. Okkur ber skylda til þess, ekki bara í ljósi núverandi aðstæðna heldur vegna stórkostlegra byltinga allt í kringum okkur og hjá okkur sjálfum undanfarin ár og áratugi.

Við þekkjum umræðu um að það þurfi t.d. að auka stuðning við hátæknifyrirtæki, fyrirtæki eins og Marel og Össur, sem hafa sýnt mjög góðan árangur, CCP og fleiri fyrirtæki sem eru komin með alla vega annan fótinn erlendis vegna þess að aðstæður hér eru ekki að öllu leyti samkeppnishæfar. Það er bara því miður þannig. Við þurfum klárlega að taka til í okkar ranni til að gera umhverfi þeirra fyrirtækja sem vilja vera hér betra vegna þess að hér eru mikil gæði og eftirsóknarvert að reka fyrirtæki, það á að vera það. Við horfum til framtíðar á aukna möguleika hvað varðar hátæknimatvælaframleiðslu sem þarf kalt loft, sem er hér, nægt vatn, næga raforku. Við höfum þetta allt saman. Við getum skarað fram úr í þessum efnum. Við getum orðið til fyrirmyndar. Við skulum kannski gefa Austurlandaþjóðunum sem áður voru nefndar forskotið áfram í farsímum og sjónvörpum og slíku. En við getum svo sannarlega náð góðu forskoti hvað varðar matvælaframleiðsluna. Laxeldi og fiskeldi fer vaxandi hér. Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu á næstu dögum hvað varðar bætta umgjörð um öflun þörunga, bæði smáþörunga, þara og þangs. Þar eru miklir möguleikar.

Það er margt sem við getum gert. En við þurfum að vera með plan. Við þurfum að vera með betra plan en við erum með og þetta mál sem hv. þm. Smára McCarthy leggur fram ásamt Pírötum og Framsóknarfólki er skref í rétta átt. Ég styð það eindregið og tek undir með þingmanninum og hvet þingheim til að afgreiða þetta mál fljótt og örugglega og hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, til að bretta upp ermar og koma þessari vinnu af stað svo að við sjáum nýja iðnaðarstefnu fyrir Ísland, helst á næsta ári.