151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[14:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í þessu sem öðru, og ég tek undir það, að við þurfum að vera með opinn huga. Við þurfum að hugsa út fyrir boxið. Vissulega er margt ólíkt með ríkjunum Íslandi og t.d. Suður-Kóreu en einnig margt líkt þannig að ég segi aftur að það sem við getum nýtt okkur frá þeim ættum við að taka inn í okkar vinnu þegar þar að kemur. Ég geri ráð fyrir því að þingið vilji samþykkja að farið verði í vinnu við að gera þessa sjálfbæru iðnaðarstefnu fyrir Ísland. Ég tel það einboðið.

Mér fannst að öðru leyti bara gaman að hlusta á þingmanninn fara yfir það hvernig þessar þjóðir hafa byggt upp sinn efnahag. Hann er greinilega fróður og hefur undirbúið sig vel fyrir þetta allt saman. Það mun nýtast í vinnunni sem fram undan er. Ég held að það sé algerlega á okkar ábyrgð að koma þessu máli fljótt og örugglega áfram. Ísland þarf á því að halda. Við þurfum að leita allra leiða til að auka verðmætasköpun.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að Ísland hafi gríðarlega mikla möguleika til að verða mjög framarlega í matvælaframleiðslu í heiminum miðað við það landsvæði, orku og auðlindir sem við höfum hér. Hann tók undir það að þörungamálið mitt væri spennandi. Við eigum eftir að ræða það mun betur í þessum sal. En er þingmaðurinn ekki sammála því varðandi t.d. hátæknimatvælaframleiðslu og annað, t.d. framleiðslu á eldsneyti og öðru, að við séum að tala um gríðarlega spennandi verkefni til framtíðar? Það er yfirleitt alltaf þannig að þegar að þrengir þá verða líka til tækifærin og þá gerast stórkostlegir hlutir.